Hnífur Abrahams

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2007
Flokkur: 


Af bókarkápu:

Þegar írska rithöfundinum James Donnelly berst dularfullt póstkort frá nýlátnum vini sínum grunar hann að ekki sé allt með felldu. Í kjölfarið dregst hann inn í stórhættulega svikamyllu sem þeytir honum og íslenskum aðstoðarmanni hans um götur New York, sífellt nær ævafornu leyndarmáli um sameiginlegan forföður gyðinga, kristinna og múslima - Abraham.

Úr Hnífi Abrahams:

New York, Sheratonhótel, 10. júlí.

Prófessor Paul Feiler hljóp eins og fætur toguðu í gegnum anddyri hótelsins. Hann ríghélt utan um brúnu leðurtöskuna, gömlu kennaratökuna sína sem geymdi fyrirlesturinn - sem geymdi leyndardóminn.
  Síðustu vikur og mánuðir hringsnerust í höfðinu á honum. Uppgötvanirnar ... feluleikurinn ... óttinn.
  Feiler þaut í áttina að útgöngudyrunum. Þrátt fyrir hraðann og hræðsluna var hann einbeittur á svip. Það var aðeins eitt verkefni fyrirliggjandi, eitt verkefni sem hann átti eftir að klára.
  Þeir mega ekki eyða sannleikanum!
  Fast á hæla Feilers fylgdi Charles Hogue, útsendari CIA. hann var hávaxinn og klæddur í dökkgrá jakkaföt. Kolbikasvart hárið bifaðist ekki á meðan á hlaupunum stóð og Hogue blés varla úr nös.
  Paul Feiler ruddist í gegnum útgöngudyr hótelsins og skrikaði nánast fótur þegar hann kom út á Seventh Avenue. Klukkan var rétt rúmlega hálftíu. New York var vöknuð til lífsins og vegfarendur og bílar þutu hjá með miklum hraða í sumarsólinni.
  Hvert get ég farið? Feiler leit snögglega í kringum sig, upp og niður götuna. Þangað! Prófessorinn tók á rás niður breiðgötuna.
Dökkblá augu Hogues grófu sig í bak Feilers á meðan á eltingarleiknum stóð. Hann brosti með sjálfum sér yfir viðbrögðum Feilers, prófessorsins gamla sem ætlaði að halda fyrilestur síðar í dag og segja frá nokkru sem hann hafði engan rétt til að kjafta frá. Þú nærð ekki að uppljóstra neinu núna.
  Feiler beygði snarlega inn í kínverska kjörbúð sem stóð við götuna. Hogue lagði hönd sína ósjálfrátt á byssuna sem hann geymdi inni á sér. Hvað gekk prófessornum til?
  Feiler hljóp með óðagoti inn búðina og leitaði að því sem hann vissi að gæti bjargað stöðunni. Ekki honum, það var of seint, heldur leyndarmálinu. Það var það eina sem skipti máli núna.
  Hillur og matvörur þutu hjá með ógnarhraða. Feiler hafði séð þessar aðstæður fyrir, hann vissi að menn eins og Hogue yrðu einn daginn sendir á eftir sér. Í því skyni hafði hann búið til varaáætlun sem hann hugðist nú framfylgja.
  Hann hljóp upp að afgreiðsluborðinu og fann loks það sem hann hafði leitað að. Feiler keypti hinn einfalda hlut ... hinn einfalda hlut sem ætti nú eftir að reynast lykillinn að einu magnaðasta leyndarmáli sögunnar. Feiler hófst handa við að pára á gripinn áður en hann bað kínverska afgreiðslumanninn um að gera sér greiða.
  Leyniþjónustumaðurinn beið spakur fyrir utan matvörubúðina. Hann vissi að Feiler væri á hans valdi og kæmist hvergi. hann hafði leyst þetta fyrra verkefni dagsins vel af hendi. Yfirmaður minn getur verið ánægður með mig.
  Paul Feiler gekk skömmu síðar út úr búðinni og leit í augu Hogues eitt andartak.
  ,,Leikurinn er búinn, sagði Hogue hrjúfri röddu og sýndi Feiler byssuna sem hann geymdi upp við síðuna á sér. ,,Komdu, við skulum fara í smábíltúr.
  Feiler leit í kringum sig, á fólkið sem gekk Seventh Avenue upp og niður en gaf þeim engan gaum. Hann var ekki hræddur þrátt fyrir óumflýjanleg örlög sín, heldur brosti. Leikurinn er langt frá því að vera búinn!
  ,,Hvers vegna brosirðu? spurði Hogue hissa.
  ,,Ég vil ekki skemma fyrir þér óvæntu ánægjuna, svaraði Feiler yfirvegaður og starði út á breiðgötuna, á bílana sem keyrðu hana hratt og gangstéttina hinum megin.
  Donnelly, þetta er í þínum höndum, hugsaði Feiler áður en hann tók á rás út á erilsama götuna.