Á hnífsins egg : Átakasaga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001

Úr Á hnífsins egg

Þegar fundarmenn komu útúr Tjarnarbúð blasti við þeim heil hersing lögregluþjóna og allmargir lögreglubílar, öðru nafni Svartar Maríur. Við Pétur hugðumst ganga útá Austurvöll og sjá hverju fram yndi, en heyrðum þá einn lögregluþjóninn hrópa: Við skulum taka forsprakkana, þá verður ekkert úr þessu! Við höfðum ekki gengið nema nokkur skref þegar fyrir mig gekk Guðmundur Hermannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn og tilkynnti valdsmannslega að mér væri óheimilt að fara útá Austurvöll. Hann virti Pétur ekki viðlits.

Meðþví mér var áskapað ofnæmi fyrir hverskyns valdi og valdbeiting eitur í mínum beinum, varð ég snakillur og svaraði því til, að hann væri sannkallaður 'idjót' ef hann teldi sig geta svipt mig stjórnarskrárbundnum réttindum. Bað hann mig endurtaka orðið og ég bætti um betur, kallaði hann 'kraftidjót'. Skipti þá engum togum að hann og félagi hans tóku mig fastan og leiddu mig mótþróalaust í eina Svörtu Maríuna. Reyndist ég vera fyrsti fanginn og sat um stund einsamall í bílnum, en brátt bættust fleiri í hópinn. Komið var með Ragnar Stefánsson handjárnaðan og í kjölfar hans komu Sigurður Jóhannsson, Leifur Jóelsson, Stefán Unnsteinsson og einhverjir fleiri sem ég bar ekki kennsl á.

Leifur sat aftast í bílnum og neitaði að færa sig frammeftir. Lét þá lögregluþjónn númer 37 kylfuna ríða á höfði hans og herðum og síðan hvar sem verkast vildi, þegar Leifur beygði sig í keng til að hlífa höfðinu. Blóðið lagaði úr höfði hans. Kom fyrir lítið þó við hinir reyndum að koma vitinu fyrir fólið og benda á, að jafnvel bandarískir lögregluþjónar væru varaðir við að lemja menn í höfuðið. Hafði ég ekki fyrr orðið vitni að þvílíku lögregluofbeldi á Íslandi, en kannaðist við það frá Grikklandi. Síðar kom á daginn að fara varð með Leif á Slysavarðstofuna. Sama máli gegndi um Birnu Þórðardóttur sem særst hafði á Austurvelli þegar lögreglan reyndi að hrifsa af henni fánastöng. Varðist hún einsog sönn valkyrja, en Bjarki Elíasson yfirlögregluþjónn lét sér sæma að dreifa þeirra gróusögu til fréttamiðla, að hún hefði reynt að sparka upp í milli fóta lögregluþjónunum (Mbl.). Varð sá kvittur fleygur og Birna ýmist hyllt sem ný Jóhanna af Örk eða nídd sem ókind.

(s. 50-51)