HKL ástarsaga

HKL ástarsaga
Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2019

Um bókina 

Á rithöfundarferli Péturs Gunnarssonar hefur Halldór Kiljan Laxness reglulega skotið upp kollinum; allt frá því að sögupersónan Andri glímir við skugga skáldsins þar til Pétur sjálfur horfir um öxl á mótunarárin og segir: „… ef einhver var ofurölvi af HKL þá var það ég.“ Og nú er HKL umfjöllunarefnið. Hér er dregin upp forvitnileg mynd af metnaðarfullu skáldi í upphafi ferils síns, ástum hans og lífsátökum. Pétur leitar fanga víða, til dæmis í einkabréfum, minnisbókum, tímarit um og verkum Nóbelsskáldsins.

Úr HKL ástarsögu

  Sautjánda árið rennur upp, ár hins fyrirframboðaða dauða, úti í Evrópu geisar heimsstyrjöldin og þótt Ísland hafi sloppið við sjálf átökin leika náttúruöflin lausum hala, frostaveturinn mikli gengur í garð í ársbyrjun 1918, jörðin krumpast eins og pappi, frostið spennir upp húsgrunna, hægt er að ganga þurrum fótum upp á Akranes og Flatey á Breiðafirði er orðin landföst. Á sama tíma girða átökin úti í Evrópu fyrir innflutning á kolum, það frýs í náttpottum og blekbyttum.
  Það tekur vorið og sumarið að slétta aftur úr jarðarteppinu og frelsa eyjarnar frá landinu, aftur er hægt að skvetta úr koppum og brynna pennastöng í byttu. en þá - ég trúi þessu ekki - tekur Katla að gjósa, gosmökkinn ber við himin séð af Öskjuhlíðinni sem von bráðar verður Öskuhlíð, áhorfendur koma til baka eins og blámenn.
  Og ofan á allt þetta - ert'ekki að grínast! - kemur spænska veikin, inflúensufaraldur sem kvistar niður þá sem sluppu lifandi úr helför heimsstyrjaldarinnar. Nú gagnast afskekktan Íslandi ekki baun, bakterían þarf hvorki kafbát né flugvél, lífshættan felst í því einu að anda. Gervöll Reykjavík er komin með háan hita, tíundi hver íbúi á ekki afturkvæmt á fætur, líkhringingar kallast á við hamarshögg kistusmiðanna og í Hólavallagarði eru teknar fjöldagrafir.
  Og Halldór skrifar í kapphlaupi við dauðann.
  "Ég sagði : Þetta rit sem ég nú byrja á mun verða mitt fyrsta og síðasta verk (ég var þá ekki fullra 17 ára) og það skal einnig verða hið síðasta verk er heimurinn þarfnast, hið síðasta orð til mannanna og um þá. Það verður samsafn allrar lífsreynslu veraldarinnar ..." 

(52-53)