Hjartsláttur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009
Flokkur: 
Unglingabók.

Af bókarkápu:

Allir stara á nýja strákinn þegar hann gengur inn í bekkinn í fyrsta sinn. En enginn með sömu augum og Íris Sól. Hún sér strax eitthvað alveg sérstakt við Tristan – og það er gagnkvæmt. Er hægt að trúa á ást við fyrstu sýn? Og er nokkuð að marka gamlar sögur um sorgleg og óumflýjanleg örlög?

Úr Hjartslætti:

Tristan

Þessi skóli er svo sem ekkert verri en sá síðasti. Kannski jafnvel aðeins betri. Tristan er vanur forvitninni og áhuganum sem hann veit að mun dvína fljótlega þegar skólasystkinin gera sér grein fyrir að að hann er bara ósköp venjulegur, íslenskur strákur sem er hvorki upprennandi rappari né næsta stjarnan í körfuboltanum. Hann hefur flutt nokkrum sinnum áður, byrjað í skólum, hætt í skólum. En nú eru þau komin í íbúð sem þeim líkar, bæði honum og mömmu. Það er fallegt útsýni úr stofuglugganum, það sést aðeins glitta í sjóinn og Esjuna handan við húsþökin. Og það er líka fallegt útsýni héðan úr sætinu hans.
Hann tók strax eftir henni þegar hann kom inn í bekkinn. Hún glápti ekki á sama hátt og hinir krakkarnir. Hún horfði á hann en augnaráðið var einhvern veginn öðruvísi en hjá hinum. Hann er ekkert reiður þeim sem glápa, það er alveg eðlilegt að þau stari á það sem er þeim framandi. Þetta líður fljótt hjá, hann verður hversdagsleg sjón eftir nokkra daga. En hún starði ekki, hún horfði bara á hann. Hann getur ekki útskýrt það betur fyrir sjálfum sér. Hún horfði á hann, Tristan, ekki á nýja, svarta strákinn.
Hann tók fyrst eftir augnaráðinu og svipnum, síðan ljósu yfirbragðinu, húðinni sem er hvít þrátt fyrir sólríkt sumar, ljósu hárinu sem glitrar í birtunni frá glugganum eins og gullþræðir væru spunnir í það. Hún er falleg. Falleg og einhvern veginn brothætt. Hendurnar sem liggja uppi á borðinu eru svo grannar, fingurnir eru langir og mjóir og herðarnar undir blárri peysunni líta ekki út fyrir að geta borið þungar byrðar. Samt er ekkert veiklulegt við hana, hún er bara svo fíngerð, eins og postulínsdúkka, eins og prinsessa ...
- Íris Sól, þú ert þó ekki sofnuð í fyrsta tímanum? Ekki lofar það góðu!
Hann trúir varla sínum eigin eyrum. Íris Sól. Hún heitir Íris Sól. Þetta getur ekki verið tilviljun. Fallegasta stelpa sem hann hefur nokkurn tíma séð heitir ... ja, ekki alveg, en næstum því ...

(s. 12-13)