Hjarta, tungl og bláir fuglar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2002
Flokkur: 

Hjarta, tungl og bláir fuglar er framhald skáldsögunnar Frá ljósi til ljóss sem kom út árið 2001. Síðasta bókin í trílógíunni er Þegar stjarna hrapar. Bækurnar voru gefnar út saman í einu bindi 2005, með titlinum Þrenningin.

Úr Hjarta, tungl og bláir fuglar:

Söngur blárra fugla:

Í fjallaþorpinu Madrid, fyrir sunnan Santa Fe og nokkrar mílur frá Maríubarnum í Cerrillos, er kyrrðin svo mikil að maður heyrir kanínur skjótast milli runna og bláfugla verpa í trjám. Allt verður músík hérna. Brakið í greinum, hreyfingar snáka og dynjandi síðsumarrigningar. Ég hef líka alltaf hlustað vel og aldrei betur en núna svona rétt áður en ég fer, ek í burtu og hverf bak við hæðina. Ég veit ekki hvort ég get lifað án þín, Lenni, veit bara ekki hvort mig langar til þess, hvíslar Edita, vinkona mín, og rödd hennar er veikur fiðlustrengur. Röddin í mér er bara rám, heit og veik, asninn þinn. Já, það verður allt músík hérna. Hvíslar frá hlíðum, kliðar frá húsum og götum og á fjallinu andspænis húsinu okkar trónir hvíti Maríukrossinn, tákn guðsmóðurinnar sem býr í höndum mömmu og gerir kraftaverk. Ert þú nú farinn að tala um kraftaverkin í Madrid, hvíslar Edita enn. Rödd hennar truflar mig ekki. Nei, músíkin truflar mig ekki frekar en áður. Ég þekki líka hvern einasta tón í þessu þorpi enda hef ég verið hér í meira en tuttugu ár. Vaknað við söng bláfugla og krunk í hröfnum og sofnað við vængjablak uglunnar. Ég hef líka elskað hér og unnið, tálgað, sverft, flísað og pússað tré. Eplavið, furu og greni. Eftirspurnin alltaf mikil í Santa Fe og líka fínt að selja á torginu hérna á sumrin, breiða dúka á jörðina, stilla vörunum upp, standa allan daginn og selja, hrópa, kalla og selja. Kaupið grímur, líkneski, skálar og bakka, kaupið af mér, kaupið bestu vörurnar af mér, englarnir ódýrastir hjá mér! Tíminn hefur líka oftast liðið hratt. En ég hef nú líka alltaf verið hjá þér og þú skalt ekki voga þér að gleyma því, Lenni. Ég svara engu, þarf þess ekki, veit að rödd Editu hverfur mér ekki.

(s. 8-9)