Hinsegin sögur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1984
Flokkur: 

Úr Hinsegin sögum:

Alveg hinsegin saga (brot)

Saga þessi er ekki öll þar sem hún er séð og því vandlesin, vegna þess að hún leynir fremur en hún segi frá. Og þegar hún segir frá segir hún ekki frá öllu sem hún ætti að segja. Það er vegna þess að hún á eitthvað skylt við lífið og listina, þegar hún er góð, og hommann. Einmitt þetta þrennt reynir að segja frá því sem ósagt er, en þó einhvern veginn þannig að á eftir heldur það áfram að vera ósagt. Og þess vegna fær nýtt líf tækifæri til að lifa nýju lífi og góð list gengur ekki af annarri dauðri; en homminn er sér á báti: eðli hans er að leyna eða vera tvíræður. Og það hafa sagt mér geðveikir hommar að þeir séu aldrei svo geggjaðir að þeir segi sálfræðingnum allan sannleikann. Homminn lýgur samt ekki, hann notar bara frásögn sem vekur flækjur fremur en hún greiði úr þeim. Þess vegna er hann leyndin sjálf, og í sínum hópi, hinum lokaða heimi hommanna sem enginn kemst inn í og er fullur af ósögðum hlutum, þar er jafnan verið að látast. Og það hefur sagt mér frægur sálfræðingur að þótt ótal rannsóknir hafi farið fram og hommar hafi verið teknir í einkaviðtöl og þeir látnir sverja við Biblíuna að segja sannleikann og ekkert nema sannleikann, þá séu vísindin engu nær um það hvað homminn sé, að öll sálfræðirit um homma séu að mestu tilgátur, vegna þess að homminn er í eðli sínu einslags hilling og sjónhverfing, efni sem eyðir sér.

(s. 44)