Himinninn yfir Þingvöllum: Þrjár sögur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009
Flokkur: 

Um bókina:

Þrír ungir menn. Þrjár ungar konur. Þrír ólíkir heimar: Reykjavík, frönsku Alparnir og yfirgefinn borpallur í eyðimörk. Alls staðar ríkir örvænting, ærandi þögn og djúp einsemd sem leiðir til furðulegra atburða og óhæfuverka.

Í þremur sögum kannar Steinar Bragi mörk mennsku og ómennsku og samband veruleika og óra.

Úr Himninum yfir Þingvöllum:

  ,,Þú hugsar of mikið um dauðann.”
  ,,Ekki meira en þú.”
  ,,Það skiptir ekki máli hvort gerir meira. Þú hugsar of mikið um dauðann og verður að passa þig, við getum talað um mig seinna ef þú vilt.”
  Þau horfðu bæði upp í loft og þögðu, þar til stelpan sagði:
  ,,Af hverju skrifarðu ekki sögu um Rafflesíublómið?”
  ,,Kannski af því ég veit ekki hvað það er?” Hann gerði sér upp hlátur. ,,Af hverju skrifar þú ekki um það?”
  ,,Ég hef enga einbeitingu. Þú hefur einbeitingu og yfirvegun. Ég get kannski talað, en ekki skrifað.”
  ,,Hvað er Rafflesíublóm?”
  ,,Það blómstrar einu sinni á ári, alltaf upp úr miðnætti á rigningarnóttu; lifir sníkjulífi utan á trjárótum og þegar blómstrunin verður – sem varir í nokkra daga – gefur það frá sér sterka lykt, svipaða nályktinni sem kemur af mönnum. – Skírt af Tómasi Raffles, stofnanda Singapore, einum dugmesta hönnuði breska heimsveldisins, og í höfuðið á honum sjálfum ... Kannski hugsum við bæði of mikið um dauðann,” bætti hún við eftir stutta þögn. ,,Eða hann um okkur?”
  ,,Hættu þá að tala um hann,” sagði hann og varð pirraður.
  ,,Þú verður bara að passa þig. Það er hættulegt að hugsa of mikið um dauðann og vanrækja lífið. Viðhorf þitt til dauðans getur orðið eins og hundsins til meistarans: þú heldur að þú skiljir eitthvað og stjórnir jafnvel eigin hegðun sjálfur en í raun ertu ekkert nema undirlægja, samband ykkar blanda af ótta og undirgefni – hvað þig varðar að minnsta kosti. Og skilningurinn er ekki nema tap sjálfs þín, gömul gleymd skilyrðing. Þú skilur ekki langanir eða eðli meistara þíns, þú varst bara píndur til að sjá hvernig hann hagaði sér og hvenær, ekki af hverju. Þetta er allur skilningurinn.”
  ,,Úff!” hrópaði hann og fórnaði höndum. ,,Ég verð að gera eitthvað annað, augljóslega!” Andskotans kvikindið, litla sítalandi, símalandi vél, hugsaði hann og langaði í fyrsta skipti síðan þau hittust til að losna við hana og vera einn.
  ,,Já, úff! Að eiga við dauðann sem jafningi er ekki hægt nema með því að standa föstum fótum í lífinu, að hafa að minnsta kosti trú á lífinu ... En fyrirlíta það ekki, eins og þú gerir. Og ég eflaust líka.”
  ,,Hver sagði að ég ætlaði að skilja dauðann?”
  ,,Nú, af hverju ættirðu annars að tala sífellt um hann eða skrifa? Eða er ritgerðin þín meira um verk Halldórs Laxness en dauðann? ,,Um dauðann í verkum ...” – Sagðirðu það ekki? Þú hlýtur að gera meira en segja hvernig hann skildi dauðann –“
  ,,Maður skilur ekkert dauðann!” hrópaði hann. ,,Enginn! Enginn skilur dauðann. En það er samt hægt að skrifa um hann. Það er hægt að skrifa um allt – allt annað! En vera samt alltaf að skrifa um dauðann. Það er hægt að skrifa um ekkert nema andskotans lífið en vera fastur í dauðanum og segja aldrei neitt nema um dauðann, sama hvað maður reynir!” Hann fann hvernig hann var farinn að roðna, blóðið logandi heitt í andlitinu og mundi ekki hvenær hann hafði síðast hrópað svona, líklega þegar hann var unglingur.
  ,,Ætlarðu þá að skrifa handa mér söguna? Um blómið?” Hann hristi höfuðið, teygði sig í sígarettu úr pakkanum hennar og kveikti sér í.
  Hún fór.
  Hann hugsaði um það sem hún sagði. Hann hugsaði líka um að skrifa en vissi að hann gæti það ekki, hvað þá eftir pöntun. Allt sem honum hafði tekist að skrifa um ævina var byggt á einhverslags misskilningi – því að hann ætlaði að skrifa eitthvað annað. Þegar hann svo uppgötvaði hvað birtist brast honum kjarkur og hafði aldrei kjark til að ákveða að gerast rithöfundur, og ekki til að skrifa meira en nokkrar flóttalegar, niðurlútar setningar.
  En nokkrum dögum eftir þessar samræður þeirra, í langþráðri innleiðingu litla dauða í einn kaflanna sem stóðu eins og þyrnar út úr meginmáli ritgerðarinnar, byrjaði hann að nótera eitthvað hjá sér um blómknapp sem braust upp úr moldinni og var á stærð við kálhöfuð; svo var þetta ekki lengur blóm heldur kirkja, og í kirkjunni var klukka og kólfur sem dáið barn hékk niður úr, svo annað barn go þriðja og einhvern veginn hrökk sagan úr honum og var afgreidd í einni lotu. Þá var kominn morgunn; stelpan hafði ekki komið og hann lagðist upp í rúm, fannst eins og hann heyrði þrusk í snjónum, hvítum og bjarmandi – heyrði snertingu snjókornanna hvers við annað þar sem þau féllu gegnum loftið.

(45-7)