Hillingar á ströndinni

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1971

Úr Hillingum á ströndinni:

Blöðrurnar (Werner Aspenström)

Blásnar voru upp sjö blöðrur.
Sú áttunda sprakk.
Þetta var um haust,
blómin voru niðurlút.
Það kom vetur, við settum hjólið inn og tókum fram sleða.
Ég greindi tortryggni
í augum sonar míns:
er ekki heimurinn eilífur?
Líkt og bráðnandi skriðjökull
snýr Skaparinn aftur
til upphæða.
Við getum leikið okkur í mölinni,
benti ég á.
Komdu, við skulum leika okkur í mölinni!
Síðan kom vorið að nýju.
Blásnar voru upp sjö blöðrur.
Sú áttunda sprakk.

(s. 29-30)

Tenebrae (Paul Celan)

Nálægir erum við, Herra,
nálægir og áþreifanlegir.
Handteknir, Herra,
samanþjappaðir, eins og
líkami hvers okkar
væri líkami þinn, Herra.

Bið, Herra,
bið til okkar,
við erum nálægir.

Afskræmdir gengum við brott,
gengum við brott til að lúta
niður að gryfjunni og leirnum.

Til vatnsbólsins gengum við, Herra.

Það var fullt af blóði, því blóði
sem þú úthelltir, Herra.

Það glóði.

Það varpaði mynd þinni í augu okkar, Herra.
Sjónir og varir eru svo opnar og tómar, Herra.

Við höfum drukkið, Herra.
Blóðið og myndina, sem var í blóðinu, Herra.

Bið, Herra.

Við erum nálægir.

(s. 57-59)

Í dag var ég svo hamingjusamur, að ég orti þetta ljóð (James Wright)

Um leið og vel alinn íkorninn stekkur
þvert yfir hlöðuþakið,
birtist máninn skyndilega í myrkrinu
og mér verður ljóst að það er ómögulegt að deyja.
Hver svipstund tímans er fjall.
Örn fagnar í eikartrjám himinsins,
gargandi
það var þetta sem ég vildi.

(s. 101)