Híbýli vindanna

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1995
Flokkur: 

Úr Híbýli vindanna:

Flestir skriðu saman á næstu dögum. Skipinu hafði seinkað verulega sökum veðurs, í stað þeirra tíu daga sem það tók að öllu jöfnu að sigla yfir hafið voru liðnar tvær vikur þegar þau sáu síðdegis lága strönd Nýfundnalands á bakborða og strönd Labrador á stjórnborða. Það varð uppi fótur og fit, fólk tróðst um og teygði fram hálsinn, uppi á fyrsta farrými var skálað í kampavíni, farþegar þriðja farrýmis leituðu upp á afturdekkið og horfðu á þessa útverði fyrirheitna landsins. Það var sól yfir grænum skógarhæðum og þó það væri komið fram í október var hvergi snjó að sjá. Úkraínudrengirnir stilltu saman balalækurnar og úteygur Þjóðverji kom til liðs við þá með tvöfalda hnappaharmóniku á maganum. Það var að vísu eitthvað daufara yfir mörgum en í byrjun ferðar, en nú var hvorki pest eða sjóveiki lengur, hér var Ameríka í sjónmáli, landið þar sem tækifærin bíða og draumarnir rætast.
„Ætlar þú ekki að spila með þeim? spurði Halldóra Ólaf fíólín sem stóð álengdar og hlustaði.
„Nei, svaraði Ólafur að bragði. „Ég hef aldrei spilað með öðrum, ég kann það ekki. Og ég kann ekki lögin.
„He play, sagði Loftur og benti á Ólaf. „He play, svona.
Hann hermdi eftir Ólafi eins og hann hafði séð hann spila á fíólínið í pakkhúsinu fyrir tæpum mánuði síðan.
„Play, play, sögðu margar raddir.
„Spielen. Spielen.
„Jouer, jouer du violon.
„Svona, maður. Náðu í fíólínið! sagði Loftur.


(s. 193-4)