Hetjur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009
Flokkur: 

Um bókina:

Hetjur fjallar um Þórhall sem er fluttur með fjölskyldunni sinni til Þrándheims í Noregi. Hann þekkir engan í skólanum og gengur undir nafninu Túrhalur Túrdarson. Eins og það sé ekki nógu slæmt þá gnæfir löngu dauður kóngur yfir og allt um kring eins og hann væri enn í fullu fjöri. Af hverju halda allir að það sé eitthvað gaman að búa í útlöndum? Og hvernig í ósköpunum á ellefu ára strákur úr Hlíðunum að lifa þetta af?

Kristín fléttar fornum sögum við nútímaatburði og vangaveltur um hvað það felur í sér að vera hetja.

Úr Hetjum:

Nokkrum dögum seinna fór ég í rannsóknarleiðangur á bókasafnið. Í horninu hjá beinagrindunum var rökkur. Það gerði stemninguna dálítið draugalega.

Ég horfði lengi á beinin sem voru öll í sömu gröf. Ein beinagrindin var næstum því heil og henni hafði verið raðað saman. Hún gat verið af frekar lágvöxnum manni. Höfuðkúpan var þykk og tennurnar stórar. Hluta af rifbeinunum vantaði alveg en upphandleggsbeinin voru sterkleg. Líka mjaðmagrindin. Tærnar voru ótrúlega langar. Næstum eins og fingur. Og þarna voru tvær minni höfuðkúpur, önnur líklega af barni. Það fór hrollur um mig.

Hvernig skyldi vera að lokast ofan í gröf með fólki sem maður þekkti ekki neitt? Kannski vildi stóra beinagrindin öllu ráða. Hugsanlega var sú litla dauðhrædd við hana. Kannski óttaðist hún að sú stóra tæki upp á því að bíta sig með hvössum tönnunum á kvöldin þegar búið var að slökkva og enginn sá til. Sjálf var sú litla búin að týna neðri kjálkanum og gat ekki bitið frá sér. Hún virtist ekki hafa nema einn fót svo varla gat hún forðað sér á hlaupum. Þriðja beinagrindin var með stóra höfuðkúpu, annað upphandleggsbeinið og ótal fingur. Annað var týnt. Allt í einu fannst mér stóra beinagrindin snúa sér við og hvessa á mig augun. Ég fann hvernig hárin risu á höfðinu og stóð eins og steinrunninn. Nú voru augu komin inn í tóftirnar sem áðan stóðu tómar og augabrúnirnar voru stórar og kolsvartar. Þetta var reglulega illt augnaráð. Svo heyrði ég barnsgrát.

Ég varð að líta undan, mátti ekki láta leggja á mig álög. En það var engu líkara en augnaráðið héldi mér föstum. Ég tók á öllu sem ég átti og tókst að rífa mig lausan. Því næst hljóp ég af stað og hentist alveg út á götu.

Til vinstri sá ég glitta í Niðarósdómkirkju. Tilhugsunin um andrúmsloftið í kirkjunni fékk mig til að herða sprettinn enn meira. Nú fannst mér einhver fera á hælunum á mér og ég heyrði andardráttinn. Ég hljóp framhjá styttunni af Ólafi Tryggvasyni og hægði ekki á sprettinum fyrr en ég var næstum því lentur undir bíl.

(s. 49-51)