Herra Alheimur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2003
Flokkur: 

Úr Hr. Alheimur:

Sagan segir að Guð hafi ungur kvænst fallegri konu sem Eden hét. Það var áður en Guð skapaði Alheiminn. Í tvær og hálfa eilífð hafði verið slúðrað um það í Miðjunni að Eden hefði svikið hann fyrir annan guð og Drottinn væri hér í einskonar sjálfskipaðri útlegð, einn og yfirgefinn, óralangt frá sínu fólki, og gjörvallur Alheimurinn, þetta rökkvaða afreksverk, væri í raun ekki annað en síðbúin ástarjátning til konunnar sem sveik hann; klassísk afbrýðishefnd sem kunn er meðal skapandi manna; sorglegt meistaraverk sem hrópar: Sjáðu bara hverskonar manni þú misstir af! en veit sem er að enginn er að hlusta. Átti þetta að útskýra melankólískt eðli Alheimsins og við viðkvæma kaldlyndi höfundarins. Gengu sumir svo langt að uppnefna Alheiminn Ástarsorg. Þeim var reyndar öllum varpað niður í Andhverfuna jafnóðum, staðreynd sem renndi frekari stoðum undir grun um Drottinsvik af persónulegra taginu.
Sannleikurinn var sá að Guð Almáttugur var einstaklega viðkvæmur fyrir tali um einkalíf sitt. Guð var í raun jafn mannlegur og maðurinn gat verið guðlegur.
Auðvitað vissi Drottninn að margt var skrafað úti á hnöttunum; allskonar dellukenningar voru á kreiki um hann og hans mál. En til þess að halda sauðunum heimskum hafði Alheimshirðirinn, um það leyti sem hann tók upp endurholdgunarkerfið, látið vefa gleymskuhjúp utan um litlu kúluna sína og fylgitunglin sjö. Allar sálir sem héðan héldu til endurfæðingar á fjarlægum stjörnum fóru í gegnum gleymskulagið og við það þurrkaðist allt út úr minni þeirra. Þó kom fyrir að margnotaðar sálir höfðu með tímanum myndað mótstöðuafl gagnvart geislum gleymskulagsins sem náðu þar með ekki að eyða öllum minningum þeirra frá Miðjunni. Með þessum stálsálum bárust því út til plánetanna misskýrar upplýsingar um gagnverk heimsins og stjórnanda hans: Sjáendur, spákonur og spámiðla var að finna á flestum byggðahnöttum Alheimsins. Þannig höfðu ýmsar ansi hæpnar sögur af Guði og gerðum hans jafnvel ratað á prent, honum til mikils ama. Biblíuna hafði Guð til dæmis lesið skömmu eftir að hún kom út og orðið fjúkandi reiður yfir öllum þeim rangindum og lygum sem þar voru birtar. Fyrrum eiginkona hans, Eden, var þar orðin að aldingarði, einhver þjóðarskrýtla taldi sig vera Guðs útvalda þjóð og annað eftir því. Líkt og Kristur sátu guðspjallamennirnir allir enn í dýflissum Drottins. Alvarlegasti hluturinn í þeirri bók var þó frásögnin af því hvernig hann, Herra Drottinn Guð Allsherjar, átti að hafa getið barn með einu af sköpunarverkum sínum. Svoleiðis gerðu guðir ekki.
Reyndar hafði Meistarinn stundum skapað sér bráðameyjar til stundarslökunar hér og þar. Það gátu starfsmenn Alsorps staðfest. En að voru bara sálarlausir skyndiskrokkar, eða gúmmídúkkur guðanna eins og þær voru stundum kallaðar. Um eiginlegt ástalíf var auðvitað ekki að ræða. Guði þótti ef til vill vænt um verk sín en auðvitað gat hann ekki elskað þau. Enginn skapar eigin ást. Guð var alltaf einn.

(s. 84-86)