Hermann og Dídí

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1974
Flokkur: 

Sagan kom einnig út í bókinni Sannar sögur: Það sefur í djúpinu, Hermann og Dídí og Það rís úr djúpinu.
Reykjavík: Forlagið, 1999. Sögurnar eru þar í endurskoðaðri útgáfu höfundar.


Úr Hermanni og Dídí:

Lifi Ísland! sögðu þeir. Lifi vinnan og peningarnir og pussan!

Þegar konurnar heyrðu þessi fagnaðaróp, stungu þær höfðinu út um lúkuop á hólfinu, tóku undir þau og hrópuðu:

Lifi hún, sé hún loðin! Lifi karlmenn loðnir um lófana! Lifi Ísland!

Þá opnuðust dyr á klefanum og tómri kerru var spyrnt út. Hurðin skelltist aftur og þyrlaði hvítri ísþoku inn í gluggalaust herbergið og huldi allt móðu. Unglingarnir kölluðu til hans í gegnum þokuna:

Ætlarð'ekki að líta inn í kvennabúrið og sjá djásnin og dilla?

Ekki veitir af, svaraði hann. Enda eruð þið áreiðanlega orðnir náttúrulausir með öllu af að standa hérna í ammoníakgufunni upp í klof.

Unglingarnir görguðu nokkrum sinnum með háum breimhljóðum og rótuðu upp þokunni, sem hafði lagzt yfir gólfið við fætur þeirra. Þeir stóðu upp úr hvítum flóka eins og englar í skýjum og gauluðu klámvísur.

Varaðu þig á gaddaskötunni, gra, bla, bla! Upp á hvaða Siggu? Ríða og gorr! Sóttir dóttur Jóns. Og sama hvaðan gott kemur. Lengi lifi næturvinnan!

Þeir grettu sig og skældu í andliti, ráku út úr sér tunguna, keyrðu aftur höfuðið og korruðu, stöppuðu fótum í gólfið og lömdu saman stálpönnunum, svo að hávaðinn varð ærandi.

Ríða, ríða kleinum, ríða pönnukökum, ríða hitabrúsa, gorr í gorr, og enga potthlemmatónlist, bara danslög og fjör.

Unglingarnir köstuðu á eftir þeim þunnildum, sem smullu á vegginn og féllu slépjug á gólfið við mikinn hlátur.

Ríða píkustykkinu, ríða fiski!

Það eru töggur í þessum strákum.

Já, þeir eru ágætir og vinna eins og þrælar.

Sú þjóð er sko ekki á flæðiskeri stödd, sem á svona hrausta unglinga.

(s. 37-39)