Henrí og hetjurnar

Henrí og hetjurnar eftir Þorgrím Þráinsson
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2016
Flokkur: 

Um bókina

Hvernig verður munaðarlaus, franskur strákur a lukkudýri íslenska fótboltalandsliðsins?

Um það fjallar þessi spennandi bók þar sem við sögu koma veðmál um allt milli himins og jarðar, týndir dýrgripir og íslensku knattspyrnuhetjurnar frá EM í Frakklandi – en líka sorglegir atburðir úr fortíðinni og flókin vandamál sem leysast ekki þótt boltinn endi í markinu.

Úr bókinni

Henri stóð á bílaplaninu með Fleurette í fanginu þegar landsliðsmennirnir tíndust inn í rútuna á slaginu ellefu. Þeir voru í æfingafötum, flestir í stuttbuxum og ýmist í íþróttaskóm eða inniskóm en héldu hver um sig á tveimur pörum af fótboltaskóm. Raggi gekk beinustu leið að Henri og laumaði tíu evru seðli í lófa hans, beygði sig niður og hvíslaði: „Ég fæ þennan pening til baka fyrir miðnætti, vittu til. Þú rúllar mér ekki upp aftur.“

„Ég veðja að þú tapir tveimur veðmálum í dag,“ sagði Henri og starði á miðvörðinn, rétti honum síðan höndina. Þegar Raggi samþykkti með handabandi bætti strákurinn við, „bara ef við veðjum, annars ekki.“

Raggi þurfti að renna yfir báðar setningarnar í huganum til að skilja hvað Henri átti við. Brosti svo þegar hann kveikti á perunni og þótti strákurinn klókur að nefna þetta því Raggi hefði unnið veðmálið hefði hann ekki veðjað aftur.

„Þarna er hann,“ sagði Siggi Dúlla skælbrosandi og benti á Henri þegar Sveinbjörn læknir birtist á bílaplaninu. Læknirinn var að mestu búinn að jafna sig en ekki búinn að gleyma neinu.

„Ert þú litla kvikindið sem réðst á mig í gærkvöldi?“ spurði hann og þóttist reiður, um leið og hann lagði aðra höndina á öxlina á drengnum.

„Ert þú rútubílstjórinn?“ svaraði Henri og það var sem drægi fyrir sólu í andliti hans. Hann sveiflaði hægri fætinum og gerði sig líklegan til að þruma honum í lækninn aftur en hann náði fimlega að fikra sig til hliðar, þrátt fyrir að vera hátt í hundrað kíló. Einn af öryggisvörðunum gekk á milli og varpaði nokkrum frönskum orðum að Henri, sem hljómuðu nokkurn veginn svona: „Kessku-tu-fer- enri-arret-tútsvít.“

„Ertu bandsjóðandi vitlaus?“ sagði Sveinbjörn og faldi sig fyrir aftan Sigga Dúllu, „fá franskir krakkar virkilega ekkert uppeldi?“

„Þetta er læknirinn sem ætlaði að hjálpa þér,“ sagði Dúllan og greip í Henri. „Við erum með nýjan rútubílstjóra þannig að þú getur verið alveg rólegur.“

„Hvar er þjálfarinn?“ spurði Henri og hætti að sparka en leit á alla sem gengu vasklega fram hjá og inn í rútuna. Flestir veittu honum athygli, enda var þetta í þriðja sinn um morguninn sem hann varð á vegi þeirra.

„Þeir eru báðir komnir inn í rútuna,“ sagði Dúllan og sleppti ekki takinu af drengnum.

„Arret,“ sagði öryggisvörðurinn og hvessti augun á Henri.

„Ég þarf að tala við þá,“ sagði guttinn pirraður, „ég verð að fá að tala við þá.“

„Jesús Kristur, þetta er óargadýr,“ sagði Sveinbjörn og hvataði för sinni, „takk, frú Sigríður. Þú ert að bjarga lífi mínu í annað sinn. Ég þarf klárlega að fá að eiga orð við mömmu stráksa ef hann ætlar að hanga í kringum okkur í heilan mánuð.“

„HENRI,“ ómaði skyndilega yfir planið, hvassri röddu. Samstundis var eins og slökkt hefði verið á stráknum. Siggi Dúlla sleppti takinu og vippaði sér inn í rútuna og öryggisvörðurinn hopaði. Hótelstýran Mirabelle hellti sér yfir Henri sem starði skömmustulegur niður í malbikið og stakk báðum höndum í vasana. Fleurette var á sínum stað í hægri vasanum en sá vinstri var götóttur.

Mirabelle togaði Henri inn á hótelið en hann sneri sér þó við og horfði á eftir rútunni leggja af stað upp brekkuna. Liðlega fimmtán öryggisverðir voru við hliðið, lögreglubíll bakkaði frá svo að rútan kæmist út af svæðinu og þrjár mótorhjólalöggur vörðuðu veginn svo að liðsrútan kæmist hratt og örugglega á æfingasvæðið. Nánast allir sem urðu rútunnar varir veifuðu og brostu.

(23-5)