Hella

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990
Flokkur: 

Úr Hellu:

Ekki langt frá dvalarheimilinu stendur eina timburhús staðarins og hefur áberandi framhlið, andlit, sem rís upp í miðju með burst af risi. Bárujárnsklætt og hvítmálað með rauðu þaki. Allir gluggar þess eru hleraðir nema tveir sem þaktir eru stórum plakötum til áminningar um ákveðnar kvikmyndir. Yfir dyrum er skilti með bláum stöfum: Video. Orðið er handmálað af litlu sjálfstrausti sem gerir framburð þess á einhvern hátt linan, með veikum áherslum. En undir þetta orð hverfa þær þrjár vinkonur og heyrnartólin falla úr eyrum. Fíngerður kliður liggur á milli hátalaranna um hálsbergið eins og men.

Inn af krambúðarlegu afgreiðsluborði halla bólgin gólfin niður í hornin að kvistsmognum listum. Rakur svali ríkir í lofti og allir veggir eru þaktir skrautlegum plastöskjum á stærð við bækur en snúa allar kápunni fram. Þær prýða handmálaðar ljósmyndir í sterkum litum, þó mest beri á rauðu og eldrauðu, og eru gjarnan af einni aðalpersónu og skugga hennar. Yfir axlir og á milli læra getur síðan að líta minni og minni aukapersónur eftir því sem út í bakgrunninn líður þar sem ef til vill örlar á hraðbáti eða sportbíl í þann veg að springa í loft upp. Í hnipri frá þessum miklu atburðum situr boginn maður á bak við afgreiðsluborðið með hár yfir eyrum og gler fyrir augum, í þófkenndri brúnni ullarpeysu. Undan fingrum hans stendur lóðrétt reykjarsúla og hann situr líkt og hann orni sér við glóð hennar. Undir borðinu, fyrir framan hann, er stór öskubakki fullur af stubbum, hann drepur í þeim á líkan hátt og hann búi þá til og sé að safna. Og sjálfur hefur hann séð allar myndirnar í þessu safni sem hann skiptir í þrjá flokka. Spennumyndir. Gamanmyndir. Góðar myndir. Getur spólað þær allar til baka í kollinum á sér og á skoðun sína við hverri, sé spurt. “Góð með matnum”, “Ekta löggumynd”, “Tólftomman af Top Gun”.

Þær stíga hljóðar inn og hika ögn þegar upphleyptur gólfdúkurinn lætur undan með fúnu hljóði. Feta sig varlega að veggjunum sem þaktir eru hinum smáu skrautlegu myndum og minna á safn af austrænum helgimyndum. Hnakkar stúlknanna þyngjast af einskonar lotningu og stór augun fylgja hverri röð út eftir veggnum og þá hinni næstu. Fyrir þeim líða þessar myndir eins og séu þær úr öðrum og óraunverulegum heimi. Hin erlendu andlit eru áfellingarlaus, húðrétt og nefsniðin, fullkomin sem væru þau fegruð af íkonamálara. Farðaður ljósi yfirmannlegra og hádramatískra atburða er svipur þeirra þó kaldur og yfirvegaður, vottar í senn um ögrun, öryggi og fegurð. Aðeins í vandlega hugsuðum kiprum út frá augnkrókum og munnvikjum birtast líkur á innri baráttu. Það er hetjulegt um að litast í þessum fögru andlitum. Í þeim birtist allt hið besta í fari mannsins. Leikararnir eru dýrðlingar mannkyns. Stjörnur sem skína því til vegar.

(s. 26-28)