Heimsins heimskasti pabbi

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Úr Heimsins heimskasti pabbi:

Strætóinn fór með mig hingað. Ég fór út hjá gömlu sjoppunni minni og settist á tröppurnar. Hérna sátum við félagarnir í gamla daga. Langholtsvídeó (eða Bónusvídeó) var okkar staður. Ég, Biggi og Ingi áttum þetta hverfi út af fyrir okkur eftir að við urðum unglingar. Áður en hárin komu skipti hverfið voða litlu máli. Við vorum ekki búnir að kynnast og lífið okkar hófst því ekki fyrr en við urðum kynþroska. Þá endurfæddumst við og eignuðumst Vogahverfið. Já, við vorum ekki eins og þessi pempíulega Vogaklíka, Friðrik Þór og Einar Már. Þeir dóu við fermingu en þá fæddumst við.
 Ingi bjó fyrir ofan Lukku-Láka og því héngum við ekki fyrir utan þá okurbúllu. Hún er samt á Langholtsvegi, rétt hérna fyrir neðan, en við hefðum bara tapað aleigunni á því að hanga þar. Mamma hans hefði alltaf verið að koma út og fá lánaðan pening til að kaupa sér brennivín. Hún var að vanda sig við að drekka sig í hel en við höfðum meiri áhuga á því að hrækja framan í heiminn. Öll spjót beindust að okkur. Við lifðum á brúninni og af minnsta tilefni vorum við byrjaðir að berjast við hvern sem vildi. Ég get ennþá séð þetta fyrir mér. Við vorum svo fyndnir. Biggi bjó alltaf hjá mömmu sinni í Nökkvavogi og ég flutti árlega með pabba og stjúpu í stærra og stærra hús innan hverfisins. Þau voru að fíla góðærið í tætlur og skömmuðust sín fyrir mig og vini mína.
 Ef ég loka augunum sé ég okkur félagana fyrir mér tölta frá sjoppunni okkar. Ég er með Guns N Roses-bakmynd ásaumaða á gallajakkanum. Hárið er greitt í brodda og reiðin kraumar í litlu hjörtunum okkar. Ingi er nýbyrjaður að safna hári og felur lubbann undir derhúfu því hann getur ekki bundið hann í tagl. Og Biggi djöfull er með rauðan topp og brodda eins og ég. Hann er í grænum fæterjakka en Ingi klæðist alltaf þessari fáránlegu úlpu sinni. Hún er grá með einhverjum amerískum götuheitum saumuðum í hana alla og brúnum loðkraga. En það er fullt af vösum á henni, segir hann við okkur Bigga þegar við gerum grín að honum. Ég veit ekki hvert við erum að fara og kann eiginlega illa við að hugsa um það. Finnst bara fínt að við séum þarna og langar ekki að vita meira.
 Það er svoldið asnalegt að horfa í nostalgíu til eigin æsku þegar henni var rétt að ljúka. Ég á allavega erfitt með að venjast þeirri hugmynd að ég sé loksins kominn á aldur fortíðar. Fólk flissar líka ennþá þegar ég segi: Í gamla daga. Ég held samt að það sé staðreynd að ég eigi mér fortíð. Einu sinni var ég barn, svo unglingur og loks eiginmaður og faðir. Ég á mér fortíð þótt ég hafi hingað til brunað áfram inn í framtíðina án þess að líta til beggja hliða, hvað þá til baka. Ég hef búið í framtíðinnni til þessa. Reyndi að muna að ég væri ungur og óreyndur en skyndilega hef ég öðlast reynslu. Ég man eftir tímum sem eru horfnir. Þjóðfélagsástandi sem var en er ekki lengur. Ég varð tuttugu og átta ára fyrir tíu dögum og nú fyrst er ég búinn að átta mig á að ég er ekki barn lengur heldur fullorðinn maður.

(s. 24 - 26)