Heim til míns hjarta: ilmskýrsla um árstíð á hæli

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009
Flokkur: 


Um bókina:,,Ég sagði honum að ég gæti ekki orðið konan hans, eftir allt og þrátt fyrir allt, því mig langaði til að geta svarað barninu mínu þegar það spyrði hver faðir þess væri: Faðir þinn er kona."Kona með kramið hjarta leitar sér hjálpar á hæli. Sérfræðingarnir komast að þeirri niðurstöðu að hún sé útbrunnin og bregða á það ráð að gera tilraunir til að eima hjarta hennar í anda ilmvatnsgerðar. Ögrandi ævintýri rifjast upp og úr hjartanu streymir hvort tveggja í senn, ilmur af ástríðu og ódaunn af sársauka. Á konuna leita spurningar um ást og traust, kvenleika og punga, ónæmiskerfi framtíðar og endurfæðingu kátínunnar.Úr Heim til míns hjarta: ilmskýrsla um árstíð á hæli:Hann leiðir mig inn á rannsóknarstofuna sína og býður mér að setjast á koparkoll og lýsa lyktinni af foreldrum mínum með einhverju móti, með tilvísan til lita og forma en best sé þó að notast við orðin. Okkur vantar enn svo margar brýr á milli hjartans og heilans, segir hann. Þangað til úr því rætist eru kenningar okkar á brauðfótum. Ég sé fyrir mér lítinn bollukarl koma skvaðandi á fransbrauðsfótum með niðurstöður lyktargreiningar undir hendinni, útataðar í smjöri.Þegar formskynjunin rennur saman við hin skynsviðin og frjóvgast gagnkvæmt verða til ný fræði sem gera okkur kleift að skilja tilfinningalíkamann og tengsl hans við ljóstímann. Ilmskynjunin opnar okkur leið, þess vegna verðum við að reyna að skilja hana. Því hún sýnir ekki einvörðungu fram á samsvörum sogæðakerfisins og stjörnuþokunnar þar sem villtar kanínur hlaupa, nei, ekki aðeins það, heldur gæti hún opnað leiðina á milli mismunandi sviða veru okkar, á milli huglíkamans, ljóslíkamans, tilfinningalíkamans og þannig mætti áfram telja. Ég er ekki búinn að setja þessa tilgátu fram neins staðar en segi þér frá henni í trúnaði: Augu þín sjá sjálf sig í spegli, þau geta ekki séð sjónina sjálfa, en allt annað. Eyrun heyra ekki rödd þína eins og aðrir heyra hana en það eru til nokkuð góð upptökutæki. Orðin leitast við að gera hugsuninni skil. En hvað með vesalings nefið, spyr hann. Ég veit það ekki, segi ég. Jú, sjáðu til, þú finnur mismunandi lykt af öllu í kringum þig og getur líka þefað af sjálfri þér, til dæmis athugað hvort er svitalykt af mér. Þú berð á þig ilmvatn og finnur að það breytist á húðinni með tímanum þegar það blandast þinni eigin lykt, heldur hann ótrauður áfram í kenningarsmíðinni. Ég samsinni þessu öllu með því að kinka kolli. Hann er kominn mjög nálægt mér og segir með galopin augun: Þú getur aldrei fundið lyktina sem verður til við blöndun húðarinnar og ilmsins. Það er enginn ilmspegill til. Þess vegna bera svo margir á sig ilmvötn sem ekki hæfa þeim, sem ekki hæfa þeim, sem ekki virkja það eðlilegasta í þeirra eigin lykt.(s. 82-83)