Haustskip

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1975
Flokkur: 

Úr Haustskipum:

Það voru fleiri sem létu í haf með haustskipum þetta árið en fangar. Hér hafði um sumarið verið uppá forlystelsi einn hofjúnkur og greifi að nafni Enevold Brandt, og barst út margvíslegur sveimur um erindi hans og aðskiljanlegt háttalag. Lengst af var hann sagður hafa dvalizt í Skálholti, hjá Sigurði Sivertsen stólsumboðsmanni, og Brynjólfi bróður hans í Hjálmholti, en einnig hjá þeim dönsku á Bakkanum. Var til þess tekið, að hann fór tíðum í spaðsérgöngur og beygði sig niður eftir blómum, og jafnvel steinum. Sumir leiddu getur að því að hann væri að leita eftir pretiosa, en aðrir, að honum hefði verið boðið hér amtmannsembætti og væri að hyggja að landsins líkamlegum skapnaði. Virtist mönnum at hönum mundi hentara að vera í auðugra landi, segir Espólín. Sigldi hann síðan með Bakkaskipi og gleymdist mönnum hér norður frá, þar til þær fréttir bárust vel 15 árum síðar, að hann hefði verið réttaður og partaður og limir hans settir á hjól til sýnis, ásamt kompán sínum og friðli drottningar, greifanum Struensee. Tóku menn þá að rifja upp eitt og annað um hofjúnk þennan og sumt þeygi grunlaust. Eða var það ekki hann sem lét heimafólkið í Hjálmholti slá hring á túninu þar sjálft Jónsmessukvöldið og elta hvað annað umhverfis með hlátrum og hrópum, og sagður hafa horfið með einustujómfrú sýslumannsins upp í klettshvamminn á eftir. Og var það ekki hann sem ekki signdi sig við messu á kóngsbænadaginn í Skálholti, heldur lyfti aðeins lítillega hattinum þegar beðið var fyrir vorum náðugasta arfaherra? En þannig er vegur veraldar: Einn sprangar um í silki og staðsi, en er næsta dag ekki annað en afhöggnir limir og haus uppi á steglu. Eða segir ekki séra Sigurður í hugvekjusálminum:

Margur hastari helstund fann
heldur en í meintum vær.
Nú í dag lík sá kallast kann;
kóngur lifði í gær.

 Það var ennú fleira sem utan fór með haustskipum 1756 en hofjúnkur þessi og delinkventarnir: Jón gamli Jónsson á Kóngsbakka sendi utan bréf til sjálfs konungsins. Reyndar hafði hann ekki sjálfur stílað það né skrifað, heldur hafði það komið út með sumarskipi og einasta til þess að hann setti undir það nafn sitt og innsigli, en sendi síðan ígen. Blessaður drengurinn hann Jón Snorrason, sem nú var orðinn bakkalárus þar í Höfn, hafði skrifað það fyrir hans munn, svo hvert orð var sem út úr hans eigin hjarta. Og það er heldur enginn annar en hann Jón Snorrason sem vitjar bréfsins um borð, strax og skipið er orðið landfast við tollbúðina. Uppi á garði lesa þeir það enn eitt sinn, Jón Snorrason og Guðmundur Helgason Ísfold, og ganga síðan saman með það til kommandants Sitters upp í Stokkhús. Þeir hafa aldrei fyrr komið þar innfyrir portið, en svo lærðum mönnum er ekki synjað aðgangs né áheyrnar. Jón Snorrason segir kommandantinum sem satt er, að Jón Jónsson þræll frá Kóngsbakka sé sveitungi sinn og æskuvinur; faðir sinn, séra Snorri Jónsson á Helgafelli, hafi fermt þá báða og Jón ratað í sína ógæfu fyrir illra manna lokkan en ekki eigin löst.

(s. 161-162)