Haukur læknir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1958
Flokkur: 

Úr Haukur læknir:

Haukur gengur að bílnum til Agnesar og ekur heim. Enn ríkir nóttin. Fólkið á læknissetrinu hvílir í draumljúfum faðmi hennar. Bíllinn nemur staðar heima við húsið. Þau tvö, sem í honum sitja – vaka. Haukur hallar sér aftur í sætinu, og augu hans hvíla á Agnesi. Heitur, mjúkur barmur hennar lyftist ótt og títt undir þunnum flegnum sumarkjólnum, hálsinn er hvítur, hakan nett, varirnar rauðar, mjúkar, heitar. Blóðið þýtur um æðar hans. Hann mætir blíðum, seiðandi augum hennar. Töfrar líðandi stundar fjötra hann, ræna hann öllu sjálfstæði. Augnablikið líður. Hann leggur arminn yfir Agnesi og hún hvílir í faðmi hans, réttir honum brosandi varir, og hann mætir þeim í löngum kossi. Gluggatjöldin í svefnherbergi læknishjónanna eru dregin til hliðar. Innan við gluggann stendur kona í náttkjólnum og horfir út. Í bílnum fyrir neðan gluggann hvílir dóttir hennar í faðmi læknisins. Bros líður yfir andlit frúarinnar. Hún treystir Hauki. Framtíð dóttur hennar er borgið. Gluggatjöldin eru dregin fyrir aftur. Ragnhildur hverfur frá glugganum. Haukur vaknar skyndilega til veruleikans, og armur hans fellur af mitti læknisdótturinnar. Hvað hefur hann gert: Kysst unga, fallega stúlku. Í sál hans er engin gleði, engin unaðarkennd. Honum er órótt. Hann getur ekki hrundið Agnesi frá sér, getur ekki afsakað framkomu sína. Koss hennar brennur á vörum hans og stimplar hann. Frelsið er glatað. Agnes hallar sér að honum, og blíð þrá speglast í augum hennar. Hún leggur mjúka armana um háls honum.

(s. 21-2)