Hansdætur

hansdætur
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2020
Flokkur: 

Um bókina

Í vestfirsku sjávarplássi í byrjun tuttugustu aldar gengur hver til sinna verka og nær óhugsandi er að rjúfa mörk stéttar og stöðu. Kona sem á þrjú börn með þremur mönnum á sér ekki viðreisnar von en dóttir hennar Gratíana þráir breytta tíma og betra líf. Hún hafnar þeim kvöðum sem hvíla á kvenfólki, hún vill ganga í buxum, frekar sulla í víni en vatni, og hún vill að Sella fái að syngja og Rannveig að ganga í skóla.

Hansdætur er örlagasaga úr íslenskum veruleika. Við sögu koma harðgerðar konur, viðkvæmar sálir, andans menn, óreiðufólk af ýmsu tagi, draumar og þrár, sorgir og sigrar.

Benný Sif Ísleifsdóttir hefur skrifað fyrir bæði börn og fullorðna en Hansdætur er önnur skáldsaga hennar.

úr bókinni

Vorkoman er eins og slitrótt frásögn þetta árið. Hlýr blær og góðviðrisbólstrar einn daginn sem gefur ádrátt um betri tíð en úrdráttur þann næsta, kannski hreggský og ruddi úr lofti. Önnur tálsýn með sunnanandvara og lygnu á pollinum næsta dagpart en bakslag undir kvöldið með kuldarigningu og stórastormi undir morguninn. Mamma veit ekki hvenær hún á að setja niður kartöflurnar eða senda eftir beljunni en húsbyggingin þokast áfram í öllum veðrum og Gratíana reynir af fremsta megni að gera sig nytsamlega við hlið Buðbjarts og fresta því þannig að vera send í fiskvinnu. Múrsteinana sem henni er fali ðað sækja í garðinn við læknishúsið hreinsar hún af nostursemi, handviss um að það sé skömminni skárra verk en helvítis fiskvinnan sem bíður hennar. Ekki það að hún öfundi Sellu af matsölunni eða Sonju Karen af barnapössuninni. Hún öfundar bara Björn Ebeneser af blaðaskrifunum. Helst vildi hún skrifa greinar í Örninn alla daga og þegar hún væri ekki að skrifa greinar í Örninn vildi hún ráða sér sjálf, gera eitthvert gagn, annaðhvort með orðum eða verkum. Helst þó með orðum. 

Af því að lesa landsmálablöðin sem berast á prentsmiðju Arnarins og heyra þýðingar Björns Ebenesers úr útlendu blöðunum verður Gratönu smám saman tvennt ljóst. Fólk hefur það betra í útlöndum en á Ísland og karlar hafa það betra en konur Útlönd eru komin lengra á framfarabrautinni en Ísland, þar eru járnbrautir og fólk fer í ferðalög, og kemur svo heim í falleg hús með trjám og gróðri í görðum, spásserar um steinlögð stræti með niðurfelldum lokræsum og fær vatnið sitt rennandi inn í hús. Karlar eru líka komnir lengra á framfarabrautinn en konur. Þeir sleppe einhvern veginn auðveldar við allt sem gerir líf kvenna svo erfitt og leiðigjarnt; þetta sífellda vatnssull og barnastúss sem hvorutveggja kemur til vegna karlanna, á einn eða annan hátt. Það þarf að þvo þvottinn þeirra, elda matinn þeirra, fæða börnin þeirra og vaska fiskinn þeirra. Fyrir svo utan að þeir sleppa við allt þetta neðanmittisvesen sem einlægt er á konum og gerir þær svo heimilisfastar.

Til dæmis er ýmsu ábótavant af þessu tagi hérna í Arnarfirði. Sem fyrr finnst Gratíönu að konur þurfi að fá hærri laun og sérstaklega þurfi þær að fá sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu. Það þarf líka að laga götur og mörg hús, bæta frárennslið og tryggja að taugavekin berist ekki með vatninu eins og fyrir norðan. Og allir krakkar þurfa að fá að ganga í skóla. Í vetur hafði ekki nema þriðjungur barna á skólaaldri sótt skólann, hin ýmist áttu ekki fatnað, skriffæri eða spjöld, eða þá að foreldrarnir þóttust ekki mega missa þau af heimilinu eða gátu ekki nestað þau til dagsins. Vildu líklega frekar að þau syltu heima hjá sér. Sum þessara heimila eru hroðalegar vistarverur og þar búa ótal ósnýttir og illa klæddir krakkar sem enginn man eftir nema á jólunum, þá er þeim boðið í jólagleðina hjá Bratt og Björnhol og þau fá gjafir frá kvenfélaginu, en restina af árinu gleymir meira að segja fátækranefndin að þau séu til.

Gratíana sér þessi börn oft þegar fer að vora, þá tínast þau upp úr Bótarbugtinni eða utan af strönd, og þau sem búa á ströndinni þurfa að ganga hjá verslunarhúsunum á Dönskugötu til að komast inn í bæ. Danskagata er seiðmögnuð og þangað togast börnin, mæna á útstillingarnar í gluggunum með uppglennt augu og þornað hor á fölum andlitum. Rúðan eins og haf milli heimsálfa, spegilglitrandi í sólskininu.

(s. 186-188)