Hanna María öskureið

Staður: 
Brekku í Dýrafirði
Ár: 
2010
Flokkur: 

Af bókarkápu

Hér kemur nú fyrir sjónir lesenda sjöunda og síðasta bókin um hana Hönnu Maríu. Þó langt hafi verið á milli bókanna er þessi fjöruga og heilbrigða stúlka mörgum minnistæð.


Úr Hanna María öskureið

Það voru þreyttir ferðalangar sem riðu fetið, bratta sneiðingana niður í Fossdal. Þau höfðu lagt af stað eldsnemma um morguninn og veðrið leikið við þau.
Baddi og Sverrir voru að niðurlotum komnir og rasssárir. Sögðust hafa fengið höstustu og lötustu hrossin úr stóðinu, þau hin öll á gæðingum. Þeir voru því hafðir í miðjunni og óspart hottað á, ef þeir ætluðu að dragast aftur úr Hönnu og Áka, sem skiptust á að vera fremst. Þau höfðu öll tvo til reiðar, svo þetta var fylking fríð.
Strákunum þótti verst að svo fáir sáu til þeirra, þar sem þau fóru mest fjallasýn. Sólin var að setjast, eldrauð kringlan hvarf í hafið, en gullbrydduð smáský lónuðu á himinhvolfinu.
Áki var hljóður. Hann horfði yfir sveitina sína. Fossinn sást í fjarska og áin rann í bugðum eftir breiðum dalnum og bæirnir kúrðu beggja megin hennar. Þarna voru Víðivellir, þar sem hann hafði fæðst og verið sín fyrstu ár.
Ótal minningar ruddust fram í hugann. Hann átti bágt með að halda aftur af tárunum. Bærinn hans, sem honum hafði fundist svo reisulegur, var að hruni kominn, ekki betur útlítandi en Fellsendabærinn þegar þau fluttu í hann.
Palli horfði undrandi yfir sveitina. –Sést hvergi til sjávar? spurði hann. –Nei, svaraði Áki. –Asnaleg sveit, enginn sjór, engir hálmar, engir bátar, borðuðuð þið aldrei fisk? spurði Baddi. –Jú, stundum var það nú, sagði Áki, og hver sveit hefur eitthvað til síns ágætis, hér er til dæmis stærðar skógur.
-Þá hefur Tarsan í trjánum kannski verið hérna, sagði Svenni, á morgun skulum við finna hann.

(bls. 27-28)