Hann nærist á góðum minningum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Úr Hann nærist á góðum minningum:

Það fyrsta sem hann man er að hann man ekki neitt. Svo fer hann að muna andrúm en ekkert áþreifanlegt. Hann man ekki eftir föðurömmunni en andrúmið segir honum að þau hafi búið í húsinu hennar nokkuð löngu eftir að hún varð ekkja. Húsið stendur í miðborginni og hefur verið gert upp; fallegt hús, eins og það er nú. Nýmálað í blágráum lit, hlédrægt eins og fólkið sem ól hann upp. Amman hafði að vísu haft gaman af því að heimsækja kunningjakonur eftir að hún varð ekkja eftir síðari mann sinn og andrúmið segir honum að hún hafi verið félagslynd. Hún var sú eina í fjölskyldunni sem hafði gaman af að vera útávið, eins og sagt er, eða þá hugmynd hefur hann að minnsta kosti um ömmu sína. Hún hélt upp á hann, hún spilaði við hann þegar hann var hálfs annars árs og taldi að hann væri byskupsefni. Hann er með byskupshendur, sagði hún við vinkonurnar sem ráku upp stór augu og gættu þess vandlega að gera enga athugasemd við þessa fullyrðingu. Hún var betri við hann en systur hans sem var fimm árum eldri. Ástæðan var líklega sú að nafnið á henni var sótt í móðurættina, hann var heitinn eftir föðurafa sínum löngu dánum. Það réð úrslitum að því er hann telur. En hann veit það ekki því að hann man ekki eftir ömmunni. Hún dó þegar hann var tveggja ára. Þá lögðu þau frá sér spilin og hún óx úr lífi hans.

(s. 7-8)