Hamingja í lífi og starfi

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006

Dalai Lama og Howard C. Cutler: The Art of Happiness at Work.

„Hann þagði um stund og hugsaði sig betur um. „Þú ert sem sagt að segja að morgunstundirnar sem ég ver til íhugunar og andlegrar iðkunar geti verið ákaflega ófrjóar samkvæmt mælikvarða Vesturlandabúa? Það minnir mig reyndar á áróður kínverskra kommúnista sem dásama ýmiss konar erfiðisvinnu en líta á iðkun munklífs sem ófrjóa. Er það þá rétt hugsað hjá mér að ef ég, á grundvelli fræðaiðkunnar minnar og andlegrar þjálfunar, legg stund á kennslu eða flyt fyrirlestra um þau mál eða tek þátt í ráðstefnum, yrði það að hitta annað fólk, þáttaka í ráðstefnum, kennsla og fyrirlestrahald talið vera skapandi iðja?“
   „Örugglega,“ svaraði ég. „Kennsla er vissulega viðurkennd starfsgrein á Vesturlöndum, þannig að ef munkar leggja stund á nám og íhugun en fást einnig við kennslu þá væri það talin skapandi iðja. Um allan heim má finna fólk sem leggur stund á afar þröng svið, eins og að rannsaka lífshlaup einhverrar lítt þekktrar skordýrategundar, og samt er það álitin skapandi eða arðbær iðja vegna þess að með þessu er lagt í sjóð almennrar þekkingar með kennslu eða greinaskrifum.
   Þannig að ef morguníhugunin þín eða fræðaiðkunin kemur einhver veginn fram í samskiptum þínum við umhverfið þá væri það talin skapandi iðja vegna þess að um framkvæmd væri að ræða. En svo væri ekki ef þú værir einsetumaður og deildir ekki þekkingu þinni með neinum.
   Og þó þetta sé nú á hreinu,“ bætti ég við, „er þá rétt skilið hjá mér að þú álítir íhugun sem fólk ástundar í einrúmi vera skapandi eða arðbæra iðju? Dæmið okkar um munkinn sem er einsetumaður, á lítil samskipti við annað fólk og eyðir lífinu alfarið í að ástunda íhugun með það fyrir augum að öðlast uppljómun - telurðu það vera dæmi um skapandi iðju?“
   „Ekki endilega,“ svaraði hann. „Frá mínum sjónarhóli séð er bæði til skapandi íhugun og ófrjó íhugun.“

(s. 170 - 171)