Hafið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992
Flokkur: 

Frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 1992. Leikritið var útgefið af Forlaginu 1992 og endurútgefið 1995. Einnig gefið út af Skruddu 2003 í ritröðinni Íslensk úrvalsleikrit.

Úr Hafinu:

JÓN: Og maður fær ekkert að éta af því þessi síldarkóngur skilar sér ekki.
RAGNHEIÐUR: Ég þoli ekki þennan eilífa andskotans hetjuskap! Hér þarf alltaf eitthvað að vera yfirvofandi. Þegar maður var krakki var alltaf eitthvað geigvænlegt yfirvofandi!
JÓN: Það er þægilegra að geta lokað sig inn í stúdíói og gera sæta stuttmynd um notalegar andhetjur – sem á íslensku nefnast aumingjar.
RAGNHEIÐUR: Nei, þægilegast er auðvitað að stíga bara upp í flugvél og fljúga burt frá öllu saman. Hver kannast ekki við hetjur flughótelanna hlaupandi um gangana með kampavínsflöskur og stríðsmálaðar hórur sem verða horfnar áður en dagur rennur.
HARALDUR: Þið farið í taugarnar á mér. [Hjördís kemur inn úr garðinum]
RAGNHEIÐUR: Ég? Fer ég í taugarnar á þér?
HARALDUR: Já, þú ferð í taugarnar á mér. Ég ætla ekki að liggja á því, þið farið öll í taugarnar á mér.
JÓN: Þú veist ég stend með þér, Halli minn, við erum bræður.
HARALDUR: Ég hef unnið í þessu fyrirtæki frá því ég var tólf ára gamall! Hvað hafið þið gert?!
RAGNHEIÐUR: Þú hafðir ekki hæfileika til annars, en mér sýnist þú hafa komið ár þinni þokkalega fyrir borð, þrátt fyrir það.
JÓN: Hvað ertu búin að stela miklu úr fyrirtækinu?
HARALDUR: Hvað hafið þið látið í staðinn fyrir það sem þið hafið fengið? Ekkert, ekki hót! Þið hafið bara heimtað og hramsað til ykkar! Hvað varst þú lengi að læra kvikmyndagerð, níu ár?
RAGNHEIÐUR: Það er ekki okkar sök að þú þorðir aldrei að heiman. Þú skeist meira segja í buxurnar þennan eina vetur sem þú fórst í Samvinnuskólann, skreiðst heim rauður af skömm.
JÓN: Hann var með ofnæmisexem.
HARALDUR: Já, það var ofnæmisexem.
JÓN OG RAGNHEIÐUR: [syngja] Hann var með ofnæmisexem og brosti gegnum tárin!
HARALDUR: Þið hafið aldrei viljað bera ábyrgð á neinu hér!
JÓN: Riddarinn af hinu sorgmædda skrifborði.
HARALDUR: [æstur] Þú veist ekkert um sorgmædd skrifborð!
JÓN: Þú ert að að breytast í sorgmætt skrifborð?!
HARALDUR: Hvað veist þú um sorgmædd skrifborð!
JÓN: Ég veit allt um sorgmædd skrifborð!
HARALDUR: Segðu þá eitthvað af viti um sorgmædd skrifborð!
JÓN: Ég hef séð þau alls staðar í heiminum. Með borðplötur sem búið er að sarga í árum saman með ótal kúlupennum og fingraför sem eru orðin að þykkri skán á skúffunum og þríritsmiða sem liggja í haugum og safna ryki.
HARALDUR: Ég hef þurft að sitja alla daga við sorgmætt skrifborð, í skrifstofu með gerviviðarþiljum og slorblettum og dagatölum með berum stelpum!
KRISTÍN: [kemur út úr herbergi ÞÓRÐAR; þau líta öll á hana] Ég stjórna honum ekki. Það er tilgangslaust að stara á mig.
RAGNHEIÐUR: Nei, þú ert auðvitað ekki þarna. Þú ert gegnsæ.
KRISTÍN: Undarlegt að gegnsæ manneskja skyldi geta þvegið af þér fötin árum saman.
RAGNHEIÐUR: Mig hefur alltaf langað til að gera bíómynd um gegnsæa persónu.
KRISTÍN: Þú skalt hafa það eins og þú vilt, Ragnheiður.
RAGNHEIÐUR: Hvað heldurðu eiginlega að þú sért? Löggilt afturganga?

(s. 67-68)