Gunnlaðar saga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1987
Flokkur: 

Úr Gunnlaðar sögu:

Þessi augu seiddu Dís til sín af svo miklum krafti að hún gat ekki slitið sig frá þeim. Henni fannst hún vera að sökkva í þau . . . Hún dróst sífellt nær og neðar uns hana tók að sundla . . . fannst hún vera að detta en sogaðist svo af feykihraða líkt og gegnum djúpan brunn í átt til ljóssins í þessum augum þar til hún stóð andspænis þeim og fyrir framan hana ung ljóshærð kona sem lagði hægt niður spegilinn án þess að hafa augun af henni. Í bláma augnanna blikuðu snögg ljósbrot sem þögult mál. Í rödd hennar eftirvænting og hljóðlát undrun þegar hún hvíslaði:

Þú ert komin!

Líkt og beðið hefði verið eftir henni.

Dís var furðu lostin. Hún renndi augum yfir vistarveruna til að reyna að átta sig. En inni var svo dimmt að hún sá ekkert í fyrstu. Svart myrkur lagði þungan hramm á allt umhverfið. Spegilinn sem hafði gljáð svo fagurlega hafði misst skin sitt og endurspeglaði nú ekkert nema myrkur. Slikjan á gullnu hári konunnar var bliknuð og í dökkum kuflinum sem hún klæddist hefði vart verið hægt að greina hana ef ekki hefðu verið augun. Þau ein brunnu. Engin glóð önnur logaði þarna inni. Í loftinu örlítill næstum ógreinanlegur þefur af sagga. Hvergi hreyfing í þessu myrkri, allt var kyrrstætt og þó þrungið eftirvæntingarfullri bið eins og skipti máli hvernig Dís brygðist við. Smám saman vöndust augu hennar myrkrinu og hún tók að greina daufar útlínur. Hún var stödd í einhvers konar holrými. Veggirnir gerðir úr gríðarstórum steinum meira en mannhæðarháum og vistarveran nánast sporlaga. Loftið var ekki hátt en eilítið hvelft. Líka gert úr steinum. Enga glugga sá hún en henni sýndist op vera á loftinu en yfir það hafði verið lagður steinn svo að enga dagskímu lagði inn.

Hvernig hafði hún komist hingað? Var hún í turni eða bergi? Ósjálfrátt tók hún að leita að dyraopi. Sneri sér við. Sá sem í sjónhending bregða fyrir skugga af manni í dökkri síðkápu og með hött á höfði. Hann smaug laumulega með veggjum í átt að lágri dyragætt eins og hann hefði verið á njósn en þegar hann var í þann veginn að líða út um gættina vék hann til höfði og leit á Dís. Augntóttin vinstra megin var tóm. Eitt andartak starði hún inn í þetta blinda op áður en myrkrið gleypti hann. Óhugur hríslaðist um hana og ósjálfrátt færði hún sig nær konunni eins og til að leita ásjár. En konan hirti ekki um skuggann. Hún hafði ekki augun af Dís og í tilliti hennar þögul bið eins og ákall. Þegar Dís skynjaði umkomuleysi hennar hvarf henni óttinn. Hvers vænti þessi kona af henni? Þú ert komin, hafði hún sagt.

Hvar er ég? spurði Dís.

Þú ert í garði Gunnlaðar, svaraði konan.

(s. 26-27)