Gulleyjan

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1985
Flokkur: 

Úr Gulleyjunni:

Meðan Gamla húsið stóð hélt Baddi áfram að halda þar næturveislur flestar helgar, þessar veislur sem oftast enduðu með rotunum, eyðileggingu og umsátri lögreglunnar. Þessar veislur voru að verða einsog óumflýjanlegur hluti tilveru fólksins í Gamla húsinu, það var hætt að láta sér bregða, stundum kom það fyrir að einhver svaf af sér allan djöfulganginn og þurfti að spyrjast fyrir alveg steinhissa næsta morgun hvort enginn hefði komið um nóttina. Og um tíma, meðan Daisy og Herman voru sem óvinsælust, hafði fjölskyldan jafnvel lúmskt gaman af næturheimsóknum þessara fullu brjálæðinga; Baddi ætlaði ekki að láta sér nægja minna en alla neðri hæðina undir gleðskapinn og það fyrsta sem hann gerði vanalega var að opna innri stofuna, kveikja ljósið, og henda the hermit út. Oft var Daisy svo króuð af og mæld út með jakalegum krumlum og slapp ekki fyrren eftir mikil óp, slapp hrasandi út til Herman sem beið glamrandi af kulda og skelfingu á hlaðinu. Oft reyndu þau að komast inn aftur og flýja uppá efri hæðina þarsem allt var læst nema kannski skáphurðin hjá tröllinu (sem þau voru bæði hálfhrædd við)... Eina nóttina héldu þau til í vaskahúsinu þarsem ýmist heyrðist breim eða tíst, vissu að þau myndu ekki geta lifað af aðra slíka helgi en svo varð það þeim til lífs að Fía og Tóti komu í heimsókn ásamt Gosa syni sínum einn daginn þegar Lína var að spá og enginn til að sinna gestum nema kanarnir. Og þeim kom svona afbragðsvel saman; kanarnir gerðu Snæfríði og Þórgný að trúnaðarvinum, sögðu þeim frá hinni illu meðferð og ofsóknum á hendur sér í Gamla húsinu og Fía hrærðist svo af þessari raunasögu að hún bauð þeim að flýja út í Rafmagnsveitublokk til sín næst þegar þeim yrði fleygt um nótt útá gaddinn. Kanarnir komu náttúrlega strax um næstu helgi og Fía hitaði handa þeim kaffi og gróf búðingstertuleifar uppúr frystikistunni og vakti Gosa svo hann gæti túlkað fyrir sig raunasögu hins vestræna flóttafólks. JesúsGuð! Og eigum flóttafólksins var engin virðing sýnd í þessum árásum, öllu hvolft og gramsað; oftar en einu sinni máttu þau tína saman Bítlaplöturnar hennar Daisy útum allt hverfi því að Baddi þoldi það ekki þegar samkvæmisgestir vildu fara að spila þetta kjánalega væl á fóninn sinn; skutlaði Bítlaplötunum út um gluggann og spilaði bara hinn sígilda Elvis Presley...
 Oft enduðu samkvæmin þannig að allir kvöddu nema einhver ein stúlka sem fór uppí herbergi með Badda og var hjá honum fram á næsta dag og þá var Lína forvitin og kvíðin og tautandi, vildi vita hvaða hórkona og tittlinganáma væri nú að draga barnið á tálar, en fékk aldrei neitt um það að vita. Baddi var ekkert að kynna þessar vinkonur sínar fyrir heimilisfólkinu, fylgdi þeim bara hratt til dyra, ýtti þeim út um gættina og lokaði, og ef Lína var að reyna að hefta för þeirra með kaffi eða tilboði um að láta hann Gretti keyra þær heim, þá afþakkaði Baddi snarlega fyrir þeirra hönd, rámur og hranalegur. Las svo ömmu sinni pistilinn þegar þær voru farnar; hvort hún ætlaði aldrei að geta skilið að hann vildi fá frið þegar hann væri þreyttur og slappur.

(s. 98-99)