Guðlausir menn - hugleiðingar um jökulvatn og ást

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Um bókina

Bókin hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2006 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár.

Úr Guðlausir menn - hugleiðingar um jökulvatn og ást

. ævintýri .

fyrir þig
myndi ég gjarna
bera inn sólskin
í botnlausum potti
allan daginn

kreista sólina
svo gulir taumar
rynnu um þig alla

XI

- erum að verða komin
mig langar ekki að hætta að keyra

veit að tilfinningin
sem hellist yfir
þegar við komum í löngu beygjuna
og sjáum ofan í dalinn
endist ekki nema þar til ég opna útidyrnar
sé hvað fjarvera mín
og heimkoma
vekja lítið fjaðrafok hjá þessu fólki
sem ég tilheyri
sem tilheyrir mér
sem ég þekki mest
sem ég veit minnst um af öllum

stíg yfir þröskuldinn
mæti pabba í stiganum
í vinnuúlpu að fara að afgreiða bensín
heilsar mér eins og alltaf
jæja þú ert komin

hversdagsleg kveðja hans
leysir upp kökkinn í hálsinum

. heima .

Þegar malbikinu sleppir
hringar sig vegur um mela
grár hvíslar vindurinn um öxl
fjöllin stara dumb

hvelfist yfir himinn
geymir hugmyndir mínar
um fjarska

ég anda í vindinn og hlæ

í dökkblárri hulu næturskýja
eru aðeins ljósari göt
vildi fara með pensil
draga betur úr
gera meira myrkur

meiri frið

fækka vitnum