Grískir reisudagar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1953
Flokkur: 

Úr Grískum reisudögum:

Í suðurveg

,,Abbazia klýfur taktfast öldur Adríahafsins. Að baki liggja Feneyjar ljósum baðaðar og hverfa smátt og smátt út í hljóða nóttina. Nötrandi vélagangi skipsins blandast angurvær söngurinn aftan af þilfari, þar sem hásetarnir hafa safnazt saman í kvöldsvalanum og syngja margradda óða sína með saknaðarhreim: - Dökkhærð víf, dreymandi augu, dularfull bros, dansandi öldur, tindrandi vín - Ítalía! Ítalía!

Yfir hvelfist heiður stirndur himinn með hálfum mána, sem kastar skímu sinni yfir þöglar verur, er sitja til og frá á bekkjum skipsins og láta ómana líða um sig. Kvöldsvalinn, mildur og hlýr, fer mjúkum höndum um vanga minn, og yfir mig færist værð Suðurlanda hljóð og heillandi. Allir erfiðleikar á ferðalaginu suður um Evrópu eru hjá liðnir, allur erillinn og óðagotið í söfnum, höllum og kirkjum að baki.

Ég stend úti við borðstokkinn og horfi á hvítfextar öldurnar kastast í tignarlegri ró undan stafni skipsins - og hjá hugskotssjónum mínum líða atburðirnir hver af öðrum. Ferðin frá Höfn suður um rústum afskræmt Þýzkaland. Töfrum lostið Svissland: fjalltindar og blátær vötn, bændabýli og fagrar borgir. Engin merki um eyðandi hönd mannsins. Norður-Ítalía sólbrennd og fátæk. Smávaxnir óðamála Ítalir, barðastórir stráhattar, svartklæddir prestar. - Og loks Feneyjar, borgin siglandi, sem tilsýndar virðist vagga á öldum Adríahafsins. Dagarnir þar: söfn og hallir, brýr og sýki. Svartamarkaðsmangarar á öllum götuhornum, ,,suave og ,,chianti á Markúsartorgi, erindi um ísland í kirkju Valdensa, sólskin að morgni, regnskúr að kvöldi, iðandi fólksmergð og örmjó stræti.
(9)