Grasmaðkur : leikrit í fjórum þáttum

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1983
Flokkur: 

Frumsýnt hjá Þjóðleikhúsinu 1983.

Úr Grasmaðki:

HARALDUR: Hefurðu nokkurn tíma skotið af byssu?
BRAGI: Nei.
HARALDUR (hampar byssunni): Svona vopn er ekki hægt að fjöldaframleiða í vélum. Hér hefur mannshöndin verið að verki. Úrvalssmiðir. Það sést um leið og maður lítur á hana. Samskeytin eru svo vel slípuð saman að það er ekki hægt að stinga hári á milli. Og sérðu skeftið: Frönsk valhnota. Þetta kalla ég að kunna að smíða.
BRAGI: Það má nú segja.
HARALDUR (réttir byssuna að Braga): Kíktu inn í hlaupin (Bragi kíkir). Hvað sérðu?
BRAGI: Eiginlega ekki neitt.
HARALDUR: Spegil. Ef þú gætir skriðið inn í hlaupin gætirðu speglað þig í þeim. Pabbi átti hana. Hann gaf mér hana á fertugsafmælinu mínu. Svona vopn gengur ekki bara frá föður til sonar heldur sonarsonar og sonarsonarsonar. Ég fer bráðum að kenna strákunum að skjóta. Pabbi kenndi mér að skjóta um leið og ég gat valdið byssu. Eini munaðurinn sem hann leyfði sér var að skjóta og synda. Hann stóð í fjörunni þegar ég kom að landi úr Viðeyjarsundinu. Hann sagði ekki margt en hann var stoltur af mér. Og hann var stoltur af byssunni sinni. Hann hirti hana eins og sjálfan sig. Sýndu mér byssuna þína, og ég skal segja þér hver þú ert, sagði hann. Það var allt perfekt sem sá maður gerði. Þú þarft ekki annað en horfa á myndina af honum þá sérðu það. Það sést í svipnum.
BRAGI (lítur til hliðar á myndina á veggnum): Þið eruð dálítið líkir.
HARALDUR: Sama stærð. Enda passar byssan jafn vel við mig eins og hann. Byssa á að passa manni eins og föt (hann strýkur byssuna með klútnum).

Stutt þögn.

Ég skal leyfa þér að skjóta þegar ég tek þig með mér upp í bústað.
BRAGI: Ég held hún passi mér ekki.
HARALDUR (hvetjandi): Hver veit nema þú gætir plaffað niður eins og eina veiðibjöllu ef heppnin er með.
BRAGI: Ég held mig langi ekki að skjóta veiðibjöllu.
HARALDUR: Veiðibjöllur eru ógeðslegustu kvikindi sem eru til. Fljúgandi rottur. Það ætti að vera skylda hvers manns að drepa þær.
BRAGI: Mig langar samt ekki til að drepa þær.

(s. 39-40)