Grandavegur 7

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994
Flokkur: 

Úr Grandavegi 7:

Ég kem aftur seinna, sagði bróðir hennar og hvarf og þá fann stúlkan fyrir miklum þyngslum í höfðinu, höndunum og fótunum og langaði skyndilega til að kasta sér í sjóinn en þá var hönd lögð á öxl hennar og hún beðin um að rísa á fætur og koma.

Hún settist inn í lögreglubílinn við hliðina á föður sínum sem hélt á bróður hennar einsog hann væri lifandi en bara þreyttur og blautur.

-Sofðu bara, vinur, hvíslaði hann í eyra hans og þegar hún rétti honum höndina spurði hann hana hvort hún væri ekki þreytt líka og hvort hún vildi ekki halla sér upp að honum. Stúlkan svaraði engu og þau óku heim að Grandavegi 7 í lögreglubíl og í dyrunum stóð móðir hennar á inniskónum og náttsloppnum og beið þeirra. Stúlkan smeygði sér framhjá henni og inn í eldhúsið og sá þá hvar amma hennar og afi sátu við eldhúsborðið.

-Sestu niður, Fríða mín, og segðu ekkert, sögðu þau.
-Þið getið aldrei varað mann við neinu, um hvað eruð þið eiginlega? æpti hún á þau sem lutu höfði einsog orð hennar væru svipuhögg sem þau þyrftu að verjast. Faðir hennar gekk framhjá henni með Hauk í fanginu og lagði hann fyrir inni í svefnherbergi. Móðir hennar stóð grafkyrr fyrir aftan hana, strauk henni þegjandi um hárið og stúlkan þorði ekki að hreyfa sig fyrr en faðir hennar settist á móti henni og sagði:

-Hann bróðir þinn er svo þreyttur. Hann verður að sofa mikið.

Móðir hennar gekk fram í eldhús og bað fólk að fara og stúlkan heyrði að hún sagðist mundu hafa samband seinna. Hún lokaði dyrunum og gekk inn í stofuna til föður hennar og kyssti hann á handarbakið, hálsinn, munninn og augun og hvíslaði „ástin mín”. Á meðan læddist stúlkan inn í svefnherbergið, settist á rúmið við hlið bróður síns, beygði sig yfir hann, lagði augun á varir hans og vonaði að hann kyssti hana góða nótt.

Svona gerði dauðinn stúlkuna barnalega og breytingarnar sem fylgdu komu hans voru margvíslegar og hvert skref þeirra í átt að einhverju sem Þóra kallaði jafnvægi lífsins tók langan tíma. Hjá stúlkunni birtist sorgin íklædd síðri svartri hempu og sat hjá henni einsog hún væri móðir hennar, strauk henni um andlitið og gerði henni ljóst að hún væri komin til að vera þangað til dagarnir yrðu aftur hversdagsgráir og myrkrið viki frá henni. Þá var stúlkan einsog týnda sólin í ævintýrinu sem fannst að lokum á himninum falin á bak við skýjaþykkni sem leystist upp og hvarf þegar rigndi.

(s. 341-342)