Gosbrunnurinn : sönn saga af stríði

Gosbrunnurinn : sönn saga af stríði
Útgefandi: 
Staður: 
Selfoss
Ár: 
2014
Flokkur: 

um bókina

Aðkomumaður hefur hreiðrað um sig í þorpinu, hann hefur auðgast af blekkingaleik, en um leið tapað áttum, og finnur sig um hríð heima þar sem margra alda stöðnun og stöðug manndráp hafa klætt mannlífið í dulargervi. Járnsmiðurinn Rebb er í raun úrsmiður og svo virðist sem systir Lena sé kannski frekar verkfræðingur en eitthvað annað. Lyfjafræðingurinn Adam er víst skartgripasali en jafnvel einnig gullgerðarmaður. Sér hinn blindi Immanuel öðrum betur? Er presturinn úrhrak og, veitingakonan Míra göldrótt? Þannig er fólkið sem byggir þetta undarlega þorp. Aðeins tvennt er augljóst - og víst: gamli gosbrunnurinn á torginu skal endurbyggður og í þessu stríðshrjáða og afskekkta þorpi er ekkert sem sýnist, ekki dauðinn, ekki stríðið - engin stríð.

úr bókinni

Hundalóðin

Þorpið var þéttbyggt og því var það að ein óbyggð lóð vakti sérstaka athygli mína. Hún var óhirt og á henni óx illgresi upp úr grófri möl og leirkögglum. Umhverfis hana var girðing, léleg þó, það sem í minni sveit var kallað hænsnanet. Á einhverjum tímapunkti hafði ég fengið þá dillu að láta byggja fyrir mig hús og spurði þá Fellini um lóðina, hvort hann vissi hver ætti hana og hvort kaup væru möguleg. Rakarinn brosti og hélt áfram að sápa vangana á Alfred lækni. Ruddinn sat og beið afgreiðslu líkt og ég - var næstu á eftir mér, hann brá ekki svip en las Gleðileikinn guðdómlega eftir Dante.
   „Þú getur ekki fengið hana nema þú sért hundur,“ sagði Fellini.
   „Skítugur hundur,“ skaut læknirinn inn í og svo hlógu þeir báðir.
   „Og hvað þyrfti sá skítugi hundur, ég, að borga?“ Ég ætlaði ekki að leyfa þeim að komast upp með fyndni á minn kostnað - það er einn af veikleikum mínum, mér er illa við að hlegið sé að mér; á minn kostnað.
   „Bærinn á lóðina,“ útskýrði rakarinn og beitti hnífnum fimlega við háls læknisins, „einu sinni á ári er öllum hundum smalað inn fyrir girðinganefnuna og þar eru þeir baðaðir.“
   „Hefur þetta farið framhjá þér? Þetta er árlegt, oftast í maí en stundum í júní.“ Læknirinn hikaði ekki við að leggja orð í belg með flugbeittan hnífinn á barkanum. Ég fékk, þótt það hljómi undarlega, enn meira traust á Alfred sem lækni við að sjá þetta því ég hugsaði sem svo að maður sem treysti öðrum svona vel með hníf hlyti að kunna að beita honum sjálfur.
   „Ég hef verið í borginni í þau skipti,“ fullyrti ég - en kannski hafði þetta bara gerst á einhverjum af þeim dögum sem ég hafði misst úr.
   „Örugglega,“ sansubbtu rakarinn og skóf síðustu strokurnar niður með eyrum læknisins og jafnaði bartana þannig að ekki varð betur gert.
   „Fylgir þessu ekki ægilega vond lykt?“ spurði ég, minnugur þess hvernig hundar heima höfðu angað af lýsóli eftir hinn árlega hundahreinsunardag - þeir voru reyndar hreinsaðir inni í litlu steinsteyptu húsi sem mér þótti alltaf dulítið vænt um vegna þess að það var reist fæðingarárið mitt og ártalið meitlað í steinninn yfir dyrunum.
   „Lykt?“ Fellini skildi ekki hvað ég meinti.
   „Nei, bara læti - agalegur djöfulgangur,“ sagði Alfred sem fékk nú yfir sig rakspírann góða - eða vonda. Ég stóð á fætur og sagði þeim þá frá lýsólinu heima en þeir könnuðust ekki við það, meira að segja Ruddinn leit upp úr Dante og horfði á mig spurnaraugum. Læknirinn þekkti að vísu efnið en ekki í þessu samhengi - en hann kvaðst vel geta ímyndað sér að þetta funkeraði vel á lús og flær.
   „Fylgstu með á þriðjudaginn kemur, það á einmitt að baða næsta þriðjudag,“ sagði Fellini og benti mér á bréf uppi á litlu auglýsingatöflunni við útidyrnar.
   „Já, ég missi ekki af því,“ sagði ég áhugasamur og settist í stólinn. Dagurinn sá átti þó eftir að fara framhjá mér.

(48-50)