Göngin

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2008

Um þýðinguna

Tunnels eftir Roderick Gordon og Brian Williams í þýðingu Rúnars Helga.

Will Burrows er fjórtan ára strákur sem býr hjá foreldrum sínum í Lundúnum. Hann á sér óvenjulegt áhugamál - honum þykir gaman að grafa göng ofan í jörðina.

Þegar faðir hans hverfur skyndilega ofan í dularfull göng ákveður Will að rannsaka málið ásamt Chester vini sínum. Brátt eru þeir komnir langt niður í jörðina þar sem þeir fletta ofan af skelfilegu leyndarmáli - leyndarmáli sem kann að kosta þá lífið.

Úr Göngunum

Eftir skóla næsta dag héldu Will og Chester áfram að grafa. Will var að koma frá því að losa þá við mulning og var með háan stafla af tómum fötum í hjólbörunum. hann gekk léttum skrefum yfir í enda ganganna þar sem Chester hamaðist á grjótinu með hakanum.

,,Hvernig gengur? spurði Will.

,,Þetta verður ekkert léttara, svo mikið er víst, svaraði Chester og þurrkaði svitann af enninu í skítuga ermina svo drullan smurðist um andlitið.

,,Bíddu, má ég sjá. Taktu þér pásu.

,,Allt í lagi.

Will lýsti með hjálmlugtinni yfir bergið, hin brúnu og gulu litbrigði jarðlaganna sem hakaoddurinn hafði holað hér og þar, og dæsti þunglega. ,,Ég held að við ættum að hætta núna og leggja höfuðið í bleyti í smástund. Það er ekki til neins að berja höfðinu við sandsteinsvegg! Fáum okkur að drekka.

,,Já, góð hugmynd, sagði Chester feginsamlega.

Þeir fóru inn í aðalholið þar sem Will rétti Chester vatnsflösku.

,,Gaman að þú skyldir vilja gera meira. Maður verður háður þessu, finnst þér ekki? sagði hann við Chester sem starði útí loftið.

Chester leit á hann. Ja, já og nei, eiginlega. Ég sagðist mundu hjálpa þér að komast í gegnum grjótlagið, en ég veit ekki með framhaldið. Ég var alveg hrikalega aumur í handleggjunum í gærkvöldi.

,,O, þú venst þessu, þú ert fæddur í þetta.

,,Heldurðu það? Í alvöru? Chester ljómaði allur.

,,Ekki spurning. Þú gætir orðið næstum því jafngóður og ég einn daginn!

Chester kýldi hann glettnislega í handlegginn og þeir hlógu, en hláturinn fjaraði út þegar Will varð alvarlegur á svip.

,,Hvað?! spurði Chester.

,,Við þurfum að hugsa þetta upp á nýtt. Sandsteinsæðin er kannski of þykk fyrir okkur. Will spennti greipar og lét hendurnar hvíla á kollinum. Það látæði hafði hann lært af föður sínum. ,,Hvernig líst þér á ... á að fara undir hana?

,,Undir hana? Förum við þá ekki of djúpt?

,,Nei, nei, ég hef farið dýpra.

,,Hvenær?

,,Tvenn af göngunum mínum fóru miklu dýpra en þetta, sagði Will og fór undan í flæmingi. ,,Sko, ef við förum undir það getum við notað sandsteininn sem þak á nýju göngunum af því þetta er fast lag. Þurfum sennilega ekki einu sinni að nota neinar stoðir.

,,Engar stoðir? spurði Chester.

,,Þau verða alveg örugg.

,,En ef þau verða það ekki? Hvað ef þau hrynja ofan á okkur? Chester virtist ekki hrifinn af þessu.

,,Þú hefur of miklar áhyggjur. Komdu, við skulum byrja á þessu! Will hafði þegar gert upp hug sinn og var lagður af stað að göngunum þegar Chester kallaði á eftir honum.

,,Heyrðu, af hverju erum við að streða við þetta ... ég meina, er eitthvað á kortunum? Hver er tilgangurinn með þessu?

Will var furðu lostinn yfir spurningunni og það liðu nokkrar sekúndur áður en hann svaraði. ,,Nei, það er ekkert merkt á landmælingakortin eða gömlu kortin hans pabba, viðurkenndi hann. Hann dró djúpt andann og sneri sér að Chester. ,,Uppgröfturinn er málið.“

(44-5)