Glíman við Guð

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2008
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Trú eða vantrú? Hvers vegna er Guði hafnað? Hvað kemur í staðinn fyrir trú feðranna? Vísindin, listin, veraldlegar hugsjónir? Er trú háskaleg eða til heilla? Hér glímir Árni Bergmann við þessar eilífðarspurningar og margar fleiri í bók sem vekur lesandann til humhugsunar um hlutverk trúarinnar í lífi okkar.

Árni vefur í bókinni saman margs konar þræði úr skáldskap, hugvekjum, ádrepum, fróðleik og persónulegum minningum. Þetta stórfróðlega rit fjallar um leit mannsins að þeim sannindum sem fara í björg og brotna ekki, fara í sjó og sökkva ekki; leit okkar að áreiðanlegu trausti til tilverunnar.


Úr Glímunni við Guð:

V.
Ástin, skynsemin og þekkingin

Við fæðumst til trúar sem rýrnar og visnar og er kannski horfin fyrr en varir. Vegna þess að fyrst hugsum við eins og börn og svo hættum við því. Hugurinn leitar annað. Það er kallað á okkur úr öllum áttum. En einna sterkust er raust holdsins.

Æjá, holdið, sagði kaþólskur munkur sem ætlaði skömmu eftir stríð að fá Günther Grass til að ganga til liðs við kirkju feðra sinna. Það get ég ekki, sagði nóbelsskáldið sem síðar varð. Holdið er að angra mig. Æjá, holdið! sagði munkurinn og mælti ekki fleira.

Sætleiki kvenholdsins sverfur, siðferðisbjargið í mér, orti Þórbergur. Og um leið þá trú sem hélt sig vera borg á bjargi trausta.

Lengst af höfðu karlar orðið í samfélögum trúaðra og þeir töldu sig komast að því að konan væri einhver skæðasti keppinautur Guðs. Kannski var hún sköpuð af Satan sjálfum meðan Guð var annars hugar. Hún var freistarinn mikli, syndaskjóðan full af banvænni fegurð og óþverra. En gleymum því ekki heldur að þegar skipt er um sjónarhorn verður ungur og fríður piltur í næsta húsi vitaskuld illur freistari og skæður táldragari hverri ungri stúlku sem vildi rétt lifa eða helga sig Guði.

Fyrir þessu er löng hefð, ekki síst í kristnum dómi. Þar kemur fyrst til sögu andúð gyðinga og frumkristinna á kynsvalli sem fylgdi heiðinni frjósemisdýrkun. Kristnin dregur líka dám af því að fyrstu kynslóðir kristinna manna bjuggust við endurkomu Krists á hverri stundu og vildu ekki að kynhvötin eða fjölskylduskyldur stæðu undirbúningi hvers og eins fyrir þau stórtíðindi fyrir þrifum. Hér kemur og til álita öflug meinlætahefð sem vísaði á brott öllum lystisemdum heimsins til að styrkja tilkall hins trúaða til sælu annars heims. Sú hefð skildi eftir sig langan slóða í uppeldi barna sem rekja má til dæmis í minningaskrifum ótal höfunda. Nóbelsskáldið François Mauriac hlaut mjög strangt kaþólskt uppeldi sem felldi kynlífið með ógurlegum hætti að Syndinni sem leiðir beint til glötunar. Dyggð ungs manns var fólgin í því að vera hreinn og vita ekki neitt og hugsa aldrei um kynvhötina, vita ekkert um líkamann, ,,búa með villidýri án þess að fá að vita neitt um það, segir skáldið franska.

Meinlætakröfur og óttinn við syndina særa seint burt freistinguna miklu sem bindur mann og konu í faðmlög. Hún mun hvergi kyrr liggja, til dmæis alls ekki í þeim klausturfriði sem menn hafa flúið til fyrr og síðar. Það vissu þeir alltof vel bæði Steinn Elliði í Vefarinn mikli frá Kasmír og höfundur hans, Halldór Laxness. Báðir kvarta sáran yfir því í skáldsögu og dagbók hvernig fagrar konur og ilmur þeirra lauma sér inn í klausturkirkjuna þeirra og trufla þá við bænahald; eins víst að fjandinn sjálfur hafi sent konurnar til að spilla torsóttum sálarfriði! Konan er andskoti Guðs í sálarstríðinu mikla, þau bæði krefjast þess að eiga manninn allan, segir Steinn Elliði. Hér verður ekki boðið upp á sættir. Kannski er eina lausnin sú að gera klausturheit um skírlífi að allsherjarboðorði - eins þótt mannkynið farist! Mér finnst stundum að rússneski skáldjöfurinn og siðbótarhetjan Lev Tolstoj væri einmitt á þeim buxum. Hann var sjálfur sem tröllriðinn af holdsins fýsn mestalla sína löngu ævi en sætti sig aldrei við það og dregur það oft fram í skáldverkum sínum að girndin sé svo tortímandi og viðbjóðsleg að ekki verði við þann ósóma unað. Söguhetja hans, Pozdnyshev, fer í Kreutzersónötunni með rammasta níð um konur og ástir sem heyrst hefur og hann er í lygilega ríkum mæli málpípa höfundar síns. ,,Gert er ráð fyrir því, segir hann, ,,að ástin sé eitthvað fullkomið og háleitt, en í reynd er ástin eitthvað viðbjóðslegt og svínslegt sem maður sárskammast sín fyrir að tala um og rifja upp. Best að hætta öllum þeim sóðalega skepnuskap sem fyrst, enda er mannkynið dauðadæmt hvort sem er - eins og vesalings eiginkona Pozdnyshevs sem hann drap í afbrýðiskasti.

(47-9)