Glettni örlaganna

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1991
Flokkur: 

Úr Glettni örlaganna:

Í kjallaranum handan götunnar situr einmana drengur og lifir upp í huganum heimboðið í hús Víglundar heildsala. Af hverju var maðurinn svona reiður við hann? Hvað hefur hann gert honum? Hversvegna kallaði Víglundur hann strákorm, og sagði að hann mætti aldrei koma þangað framar? Skyldi þetta vera af því, að mamma hans er fátæk ekkja, og þau eiga heima í lítilli leiguíbúð í gömlum kjallara, en heildsalinn ríkur, og búsettur í stóru og fallegu húsi? Ekki getur hann gert að þessu misræmi. Enginn hefur talað svona við hann fyrr. Hann er viss um það, að mamma hans hefði aldrei sagt svona ljótt við nokkurt barn. Hann vill þúsund sinnum heldur eiga fátæka, góða mömmu, en ríkan, vondan pabba. Hann sér Víglund skýrt fyrir hugarsjónum, þar sem hann stóð yfir honum ógnandi á svip, og skipaði honum að fara heim til sín. En hann var ekki vitund hræddur við þennan stóra, vígalega mann, og ætlar aldrei að verða hræddur við hann, hvar sem þeir mætast. Það er aðeins eitt sem vekur hjá honum ótta í sambandi við Víglund. Að hann banni Heiði að leika við hann framar. Að þau fái ekki að verða samferða í skólann fleiri morgna. Að honum leyfist aldrei oftar að klæða hana í snjáðu kuldaúlpuna sína utan yfir fína skólabúninginn, svo að hún geti á eðlilegan hátt leikið sér úti með hinum börnunum, en það hefur hann fengið að gera hvern kennsludag á þessum vetri. Sjálfur hefur hann látið skólapeysuna nægja sér til skjóls og glaður hlaupið margan sprett vegna þess, til að fá í sig hita þegar kaldast hefur blásið. Að Heiður megi aldrei hér eftir stíga fæti í kjallarann til þeirra mæðginnanna.

(s. 46)