Geirfuglarnir

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1982
Flokkur: 

Úr Geirfuglunum:

 Njála, sagði hann, er merkasta hómósexúal rit heimsbókmenntanna. 
 Hvað segirðu? Spurði pabbi.
 Meinarðu að einhver andskotans hommi hafi skrifað Njálu? Spurði Elías og hafði ekki náð áttum.
 Það má sjá minna grand í mat sínum, svaraði Kjartan.
 Ha! Það kemur strax fram í sögunni af Hrúti og Unni þessi dæmigerða meinfýsni hommans í garð kvenna, honum finnst konur taka eitthvað frá sér og hann lætur Hrút þrútna að neðan svo hann getur ekki sorðið konuna.
 Láttu ekki börnin heyra þetta, bjáninn þinn, sagði Beta.
 Þetta er ekki hefnd Gunnhildar, nei, hélt Kjartan áfram. Nei. Þetta er hefnd höfundar Njálu. Hann vill ekki að samfarir takist. Þessvegna hefur hann þessa sögu með, sem annars væri engin þörf fyrir.
 Þetta finnst mér nú engu máli skipta, sagði Steingrímur og reyndi að vera umburðarlyndur.
 Víst, sagði Kjartan. Það er verið að búa okkur undir það sem koma skal. Stríð Hallgerðar og Bergþóru með húskarladrápum og fleiru er ekki fyrst og fremst sprottið af heift stórlyndrar konu sem þolir ekki aðra í námunda við sig. Ekki af því fyrst og fremst. Þær eru að vísu mestu frenjur báðar, olræt. En heift höfundar í garð Hallgerðar sér í lagi stafar af því að hún truflar hina fögru vináttu tveggja karla. Hetjunnar og karls hins skegglausa.
 Ég þoli ekki svona klám í mínum húsum, hvein í Elíasi. Þú nýtur þess að það eru jól, annars skyldi ég rota svona mannfýlu sem kallar Gunnar á Hlíðarenda andskotans öfugugga...

(s. 63)