Galeiðan

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1980
Flokkur: 

Myndir: Sigrid Valtingojer.

Úr Galeiðunni:

Undirstöðuatriði, segir formaðurinn, ABC, Litla gula hænan: stundum borgar sig að tala beint út, segja fólki sannleikann umbúðalaust. Það eru ekki lengur not fyrir ykkur í þessari verksmiðju. Það verður að flytja vinnuaflið, milli greina, héraða, þjóðlanda, heimsálfa. Það er framtíðin. Jörðin er geimskip. Það verða að vera yfimenn annars strandar skipið, steytir á skeri, sekkur. Skipstjórinn stýrir sínu skipi. Okkar skipstjóri heitir fjármagnið. Fjármagnið siglir þángað sem veiðin er mest. Og áhöfnin verður að fylgja. Ný veiðitæki koma á markaðinn sem leysa mannshöndina af hólmi. Mannshöndin er ekki samkeppnisfær við vélina, það er einfalt mál, en sársaukafull staðreynd. Hvað á að gera við áhöfnina? Við sendum hana í endurhæfíngu, eða í orlof. Því þegar til lengdar lætur koma tækniframfarir og hagræðíng öllum til góða, líka þeim sem í fyrstu lotu verða fyrir barðinu á vélunum! Nú ef ekki þeim, þá kannski börnunum þeirra eða barnabörnunum! Þetta er lögmál, ekkert sem ég eða aðrir finna uppá! Og þetta þarf að segja fólkinu undanbragðalaust, skýra það vel og rækilega, hamra á því. Þá kemur að því að fólki finnst það vera til trafala, finnst það persónulega vera að eyðileggja framtíð geimskipsins, þjóðarinnar, fyrirtækisins og þá liggur við að það þakki fyrir að láta skipa sér út og suður, þakki fyrir að láta stugga sér burt, siga á sig lögreglunni, berja sig í plokkfisk! Það þarf að kenna þessum sívinnandi skríl að bera virðíngu fyrir okkur sem eigum fyrirtækin, landið og plánetuna!
 Hvít froða fellur um varir formannsins.

(s. 115)