Galdur Vísdómsbókarinnar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Um bókina:

Hætta steðjar að Humlabyggð þegar ævaforn jarlsfrú rís upp frá dauðum. Aðeins eitt er til bjargar, að finna Vísdómsbókina sem hefur að geyma ótal töfraþulur, en hún hefur verið týnd í margar aldir.

Úr Galdri Vísdómsbókarinnar:

„Einn sunnudagsmorgun skömmu síðar kom Hreiðar háaraust út nokkru fyrir birtingu. Hann leit í kring um sig og fann á sér að eitthvað óvenjulegt var að gerast. Skyndilega kom stærsta nautið í þorpinu á harðaspretti. Það rak í hann hornin af slíkum krafti að hann hófst á loft, þeyttist langar leiðir og hafnaði í snjóskafli. Hann var illa særður en staulaðist þó upp úr skaflinum og sá þá að öll naut í Humlabyggð léku lausum hala. Sum æddu um stígana og hnubbuðust bölvandi og slefandi, önnur höfðu runnið á hálku eða verið stönguð niður og lágu ósjálfbjarga út um hvippinn og hvappinn.
Hreiðar beit á jaxlinn og klifraði upp í tré til að forðast fleiri árásir. Hann tyllti sér á stóra grein og æpti á hjálp. Enginn maður í Humlabyggð hafði raddstyrk sem jafnaðist á við hans en nú var sama hvernig hann öskraði, ekkert hljóð náði fram yfir varirnar. Hann lagði ekki í að fara aftur heim að húsi því nautin voru að ganga af göflunum. Það var ekki um annað að ræða en bíða eins og fugl á kvisti þar til sólin kæmi upp í austri. Þá fylltist hann eldmóði og æpti aftur eins og lungun þoldu. Öskrið var svo voldugt að Humlar hrukku upp af værum svefni og þyrptust út.
„Er nú bannsett ófreskjan farin að skemmta sér við að rífa okkur upp þennan eina morgun sem við megum sofa út,“ tautaði unga fólkið. En mönnum brá í brún þegar þeir sáu að hér var ekki ófreskjan á ferð heldur Hreiðar yfirhumall sitjandi á trjágrein.

(s. 29-30)