Gættu þín á úlfinum

Höfundur: 
Þýðandi: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993

Um þýðinguna

Prends garde au loup eftir Yann Queffélec, í þýðingu Sigurðar Pálssonar.

Strax í bernsku verður Toni gagntekinn af Maí, frænku sinni og uppeldissystur, og þráir það eitt að giftast henni - giftast augnaráðinu, skásettum augunum, fílabeinshöndunum, hárlónni á handleggjunum, býfluguilminum og nöguðum þumalfingrinum. Þegar þau vaxa upp breytist hrifning Tona í ástríðufulla ást sem Maí vill ekki endurgjalda. Þá verður ástríða piltsins að háskalegri þráhyggju.

Úr Gættu þín á úlfinum

Ein eyja í viðbót og þá kæmist Toni að því. Ein eyja í viðbót og sálin úr kattarskrattanum Clochy væri farin til fjandans. Ein eyja í viðbót og Ömmunni myndi batna og djöflakollarnir færu aftur niður í vítisdjúpið og engir illir andar væri lengur til sem kvelja gamalt fólk og bíta sofandi börn í barkann.

Toni reri gegnum eyðilegt fenjasvæðið í ljósaskiptunum og það brakaði í árunum. Engin sála var sjáanleg. Þokan þrengdi sjóndeildarhringinn og flatbytnan skreið áfram yfir gegnsósa sefið. hann sat berleggjaður með tárin í augunum aftur í skut í bátnum og grátbað: gerðu það, bjargaðu henni, gerði það. Hann var altekinn nístandi angist þegar hann sá ömmu sína fyrir sér að þrotum komna á sjúkrahúsinu og djöflakollarnir biðu færis við rúmið hennar; bargaðu henni, bjargaðu henni.

Hann reri áfram þurr í kverkum og þorði ekki lengur að vera hræddur en varð samt skelfingu lostinn þegar hann tók efir lágsólargeislunum, fyrirboðum skugganna. Hann forðaðist gljáandi hrúgur af hvítmosa á yfirborðinu, kom auga á fljótandi höfuðleður með úfnu hári og bláleitar hendur, rakst á leðjuklumpa og stöku einmana eikartré með kirtlaveikar rætur sem sveigðu kjölfarsrákina hljóðlaust án þess að skggja yfirborðið. Á sefbakkanum greindi hann einhverja tyggjandi vanskapninga og varð bilt við. Andlitið á Ömmunni kom fljótandi og blgjðist eins og marglytta. Bráðum var nóttin skollin á með kuldahlátri. Djöflakollarnir kæmu upp á yfirborðið og breiddu úr sér og glóðu eins og maurildablómkrónur.
(9)