Fyrirheitna landið

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989
Flokkur: 

Úr Fyrirheitna landinu:

 Og einu sinni kom Fía að leita eftir sérfræðiráðgjöf; hvað er hægt að gera við drykkfelda syni? Ég veit að enginn hefur meiri reynslu af því en þú Lína mín, eins og vandræðin hafa nú verið með hann Badda! Æ æ æ, það sem er á okkur lagt.
 Það kom styggð að langömmu. Átti nú að fara að skíta hann Badda út?
 Hvað ert þú að hafa áhyggjur af honum, spurði hún hvöss.
 En Fía sagði, ekkert nema ljúfmennskan, að það væri nú ekki þannig meint, hún væri bara svo slegin og sjokkeruð útaf honum Hermanni syni sínum, sem lægi í brennivíni allar helgar. Allir hans peningar færu í brennivín. Hann slægi jafnvel slöku við vinnu útaf andskotans brennivínsfýsninni!
 Og langamma sá að kellingin kom með friði og var ekki að fiska eitthvað upp um Badda sem hún gæti smjattað á meðan hún væri að telja allar sínar milljónir. Svo að gamla konan trúði henni fyrir leyndardómum drykkjusýkinnar: Tilfellið væri einfaldlega það að þessum mönnum væri ekki sjálfrátt. Þarna væru illir andar að verki.
 Ji minn almáttugur hjálpi mér!
 Jaá, það er ekkert að efast um. Það eru drykkjupúkar og illir andar sem drekka í gegnum þessa menn. Ég man eftir því uþþuþvuzz þegar við vorum hérna útí Minnakoti sjö sé og hann Tómas heitinn var alltaf að drekka! Ég ákvað, no! Nú rek ég úr honum illa andann. Ja, svo er ekkert með það, ég hef nú mínar aðferðir, er kannski ekkert að gaspra svona um það, en svo er hann sofnaður brennivínsdauða uzzuzz þarna inní herberginu og ég fer að særa, og svo sé ég hreinlega hvernig andinn fór úr honum svona púff uppí loftið og ég verð voða glöð. Jæja! En bara heldurekki að púkinn stingi sér þá ofaní vögguna hjá litla barninu uþþuþþuþvuzzz; og nú gerði Lína krossmörk og bænaði sig í bak og fyrir. 
 Hjá litla barninu? spurði Fía skjálfrödduð. Var það hún Úlla, sem dó?
 Neei, sagði langamma, örlítið ergileg yfir skilningsleysinu: Það var hann Baddi!

(s. 175-176)