Fyrir Lísu

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2012
Flokkur: 


Sjálfstætt framhald Jójó (2011).Um Fyrir Lísu:Martin Montag kynntist ungri stúlku, Lísu, þegar hann var læknanemi á geðdeild. Hann hefur aldrei getað gleymt sögu hennar. Dag einn ákveður hann að taka af skarið og hafa uppi á henni en það hrindir af stað atburðarás sem hann missir alla stjórn á. Úr verður reyfari, farsi, harmleikur.Úr Fyrir Lísu:Ljósin voru komin á siglingu innan um kirsublómin á tjörninni þegar við Martin hurfum aftur á ábreiðuna okkar. Veislunni var langt frá þvía ð vera lokið þótt sjálfu hámarkinu væri náð og veislugestirnir farnir að tínast heim á leið.Ertu ekki svangur, elsku kallinn minn, sagði Martin. Þetta er ekkert sem þú hefur látið í þig.Ég gramsaði kerfisbundið í matarkörfunum, kom mér upp áætlun um hvað ég ætlaði að borða og í hvaða röð. Hófst svo handa, meðan Martin horfði á mig forviða.Hva, hefurðu ekkert étið síðustu vikurnar?Veistu það að ég hef aldrei á ævi minni étið eins mikið og einmitt í dag. Í morgun át ég geðveikan morgunmat, þarna (og ég bandaði að stéttinni hinum megin við götuna), ég át pylsur, steiktar kartöflur, beikon, egg, ristað brauð, ost, appelsínumarmelaði, drakk tvo makkíató. Í hádeginu borðaði ég svo rosalega stóra tyrkneska máltíð. Namm!Ertu orðinn alóður? Ætlarðu að drepa þig á ofáti? Þú veist að það er hægt líka.Á síðasta degi fær fólk oft yfirgengilega matarlyst. Þetta er útskýrt læknisfræðilega með einhverjum magaprósessum, en ég held alveg eins að fólk finni á sér að nú er síðasti séns til þess að njóta matar.Lífið er rétt að byrja hjá þér, elskan mín. Og kannski bara hjá okkur öllum, alltaf. Guð minn góður. Ef til er í heiminum erótísk flík þá er það kímonó. Ég hef nú aðeins komist í tæri við þá dásemd. Ég átti satt að segja japanska kærustu áður en ég varð róni.Þú ættir að skrifa bók frekar en að vera með þetta karlagrobb við mig.Ég er að skrifa bók.Kannski verðuru frægur, engillinn minn.Hvaða heilvita maður heldur þú að hafi áhuga á því að verða frægur? Frægð er plága. Hins vegar langar mig til þess að komast sæmilega af. Mér leiðist hroðalega að hugsa um peninga.Bara eyða sem minnstu í óþarfa, ekki að vera nískur, og þá rúllar þetta sjálfvirkt, að minnsta kosti hjá barnlausu fólki í sæmilegri vinnu eins og okkur Petru.Talandi um óþarfa, hefurðu tekið saman hvað það kostar allt þetta glingur sem þú kaupir handa Petru?Aldrei. Ég er að bæta henni upp að hún fékk ekki einu sinni pakka á jólunum þegar hún var lítil. Óskiljanlegt hvernig hún komst yfir þennan uppvöxt.Milli þess að „komast yfir“ og „lifa við“ liggur hundurinn grafinn.Bara spurning hver gróf hann.Martin horfir á mig með sársaukasvip. Hann vorkennir sér greinilega að eiga svona aulafyndinn vin, sem kann ekki að meta útúrsnúninga á T.S. Eliot – ef hann hefur þá yfirleitt heyrt á T.S. minnst.Það var þá ekki annað að gera en láta verkin tala. Sársaukasvipurinn á Martin var fljótur að fjara út, þegar hann tók nýja törn á fokdýru hágæðanestinu. Sama hvort það var leberwurst, salamí, graflax, reyktur áll, eða fasanabringa með berjasósu – allt fyrsta flokks. Það sem hafði virst ofrausn, tvær körfur, var á endanum algjör nauðsyn, því eitt og annað var nú uppurið úr körfu eitt. Þar á meðal heimsins besti brie-ostur. Martin tók utan af þessu sælgæti úr matarkörfu tvö og rétti mér væna flís.Það er reyndar ekki alveg komið að ostinum hjá mér. Hins vegar er þetta ekki pikknikk. Þetta er orgía, þar er ekkert gert eftir neinni röð.Líf sem er ekki orgía er ekki þess virði að lifa því, sagði Martin.Upp úr þeirri ógnarspeki færðist þögn yfir okkur vinina, vel metta. Nei, afvelta. Við lögðumst út af á hundaábreiðuna, sáum birtunni bregða og lifandi ljósunum fjölga milli mannanna sem höfðu komið með okkur í garðinn til að skoða ómælda fegurð kirsublómaskýjanna og „njóta eilífs lífs um stund“.(29-31)