Fyrir augliti

fyrir augliti
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2020

Um bókina

Dreymir blinda í myndum? Munu bækur koma út í framtíðinni? Hvað kostaði þriðja viðgerðin á bílnum? Hvað voru leigubílstjórarnir á kaffihúsinu eiginlega að ræða og skipti það einhverju máli? Svo er horft á fótbolta ytra eða með Skálkum heima. 

Allt eru þetta hugsanir og atburðir sem er að finna í 730 færslum í þessari óvenjulegu dagbók Úlfars Þormóðssonar sem hann hélt á árunum 2018 og 2019. Sviðið er miðbær Reykjavíkur og samfélag Íslendinga suður í höfum – en kannski mest andi Úlfars sem fer með lesendur í ferðalag um hugmyndir og atburði líðandi stundar, allt frá tíðindalausri ferð í matvörubúð til bréfaskipta við unga og efnilega rithöfunda. Margir koma við sögu og það er líka mikið lesið og skrifað.

Textinn er allt í senn, beittur, háskalegur, mjúkur og innilegur, og stílgaldur höfundar á það til að draga lesendur út í buskann og yfirgefa þá alsæla þar. 

úr bókinni

20-628 Úði og regn, lágskýjað en sér þó til Esjunnar upp í miðjar hlíðar, Skarðsheiðin á bak við ský. Hiti 11-12°.

Fann fyrir því um leið og ég vaknaði að ég hafði lokið betlinu eftir starfslaunum og var þægilega léttur innan um mig allan. Keyrði Önnu í blóðmælingu inn í Fossvog. Vann. Svavar G hringdi, var á leið vestur í Hólasel.

Sótti gleraugu í nýrri umgjörð upp í Linsu. Þar hitti ég Sidda (23-537). Hann þrætti fyrir að hafa dansað við sýslumannsfrúna á Húnavöku og fullyrti að ég hefði einokað hana. Ef það er rétt hefur það ekki verið fallega gert af mér, því ég vissi að Sidda langaði í dansinn.

Setti upp nýju gleraugun og sat með þau að spjalli við Önnu mína í tuttugu og fimm mínútur án þess að hún tæki eftir því að ég var annar maður en sá sem fór.
Hvaða ályktanir má draga af því?
Æskulýður, jú og fullorðnir, gengu hundruðum saman niður Skólavörðustíginn til þess að krefjast aðgerða í loftslagsmálum.

Horfðum á ágæta kvikmynd á Rúv, Water Diviner. Hún er undir stjórn Russels Crowe, sem jafnframt fer með aðalhlutverkið. Þar var sagt frá föður sem að lokinni fyrri heimsstyrjöld fer að leita að sonum sínum þremur sem hann telur víst að hafi fallið á átökum stríðsaðila um Gallipoli-skaga við Dardanella-sund í Tyrklandi. Myndi lýsir á lágstemmdan hátt hugarástandi fólks í stríðshrjáðu og mölbrotun landi. Afar um hugsunarverð á tímum umhverfisverndar og ekki ónýtt að horfa á hana sama dag og Trump Bandaríkjaforseti ákveður að senda her inn í Sádí-Arabíu. Vioð þau tíðindi var eins og læddist að mér tilfinning svipuð þeirri sem stundum greip mig í kjarnorkukapphlaupi liðinnar aldar. Æ, best að fá sér einn gráan, þetta er búið hvort eð er! 

Lauk við Annála Dylans. Þetta er áhugaverð bók á góðri íslensku Guðmundar Andra. Eftirmælin þóttu mér ekki merkileg og fannst örla á yfirlæti í þeim. Byrjaði að lesa nýjustu bók Ians McEwan, Vélar eins og ég. Bjartur gefur út í þýðingu Árna Óskarssonar, en höfundurinn er staddur hér á landi um þessar mundir að taka við verðlaunum Halldórs Laxness, sem veitt voru í fyrsta sinn þann 19. þessa mánaðar. Las Sigurð frá Balaskarði undir svefninn fyrir okkur Önnu.

(s. 285-286)