Froskmaðurinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1985
Flokkur: 

Gefin út undir dulnefninu Hermann Másson.

Úr Froskmanninum:

Eitt vor þegar froskmaðurinn var á sundi fram með ströndinni, svamlaði þar fram og aftur í leit að einhverju sem hann vissi ekki hvað var, varð hann fyrir reynslu sem hann kallaði með sjálfum sér hafhillingar. Hann nefndi ofsjónirnar við engan og um veturinn hafði hann næstum gleymt þeim.

Froskmaðurinn fór einförum um hafið, aldrei mjög djúpt, en hélt sig ekki alveg við landið heldur hætti sér talsvert út, nóg til þess að djúpið vakti kvíða, heillaði hann og ógnaði um leið. Skammt undan landi átti hann sér hellisskúta undir neðansjávardranga sem tyllti höfðinu upp úr sjónum. Þar sat hann stundum á steini innan um þangið og naut þess að sjá hvernig langir, brúnir og iðandi þönglar luktust um hann. Við það ímyndaði hann sér að þangið væri hár en einkum hendur sem gældu við líkama hans. Að sjálfsögðu fann hann enga snertingu vegna þess að hann var í búningi. Þrátt fyrir hættuna brá hann sér samt stundum æstur úr búningnum og leyfði þangi og þönglum að strjúka sig. Þangið virtist æsast einhvern veginn við nekt hans, þá lokaði hann augunum og naut þeirrar tilfinningar að vera í tengslum við alheiminn, hafið og gróður djúpanna.

Í huga froskmannsins vottaði fyrir sársauka yfir að engin leið væri að hverfa lifandi til hafsins, hann yrði að deyja ef hafið ætti að taka alveg við honum. Hann synti um strauma þess, einn en aldrei einmana í takmarkalausri þrá sem fylgdi honum.

Hann vissi að hann var einn á sundi þegar hann greindi næstum mannlega nálægð. Hann var lítið fyrir hópsund þótt hann tæki þátt í hinu árlega hópsundi félaga í Froskmannafélaginu. Við skynjunina synti hann inn í skútann og sat þar hugsi í klettahöll sinni. Honum var ókunnugt um að aðrir þekktu afdrepið. Reyndar vissi hann að froskmenn eiga gjarnan eitthvert afdrep neðan sjávar en ekki á þessum stað. Algengt er að þeir hafi þörf fyrir einveru og sund þeirra er í sjálfu sér útrás fyrir einmanaleikann. Það læknar sársaukann sem er einn ríkasti þáttur í eðli þeirra. Hann vissi ekki til að neinn úr Froskmannafélaginu væri á sundi þegar synt var upp að honum. Hann sá að þetta var hafmeyja sem settist á stein við hlið hans.

(s. 3-4)