Franskbrauð með sultu

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1987
Flokkur: 


Teikningar eftir Brian Pilkington

Úr Franskbrauði með sultu:

Á Bakka

 Afi og amma stóðu í dyrunum. Lilla brölti út úr rútunni og gætti þess að líta ekki á bílstjórann.
 „Jæja Gudda mín, þá er ég kominn með stelpuna til þín,“ hneggjaði bílstjórinn.
 Hann gerði að gamni sínu við afa og ömmu og hafði bersýnilega ekki hugmynd um að hann hefði móðgað Lillu.
 Amma var lágvaxin kona með kringlótt gleraugu. Hún var grönn með örþunnar fléttur sem voru festar í hring uppi á höfðinu. Flétturnar höfðu verið dökkar en voru farnar að grána. Hún var með hvíta, fína blúndusvuntu á maganum og upp á axlirnar.
 Afi var stór og feitur. Utan um stóran skallann lagðist þykkur hárkragi. Hálsinn var kafloðinn og hárin stóðu út úr eyrunum á honum. Hann var með ægilega stórt nef. Það var rautt með bláum æðum. Hann tók mikið í þetta nef.
 Amma og afi höfðu einu sinni komið til Reykjavíkur með strandferðaskipinu Esju. Þá var amma lasin og þurfti á spítala, en afi bjó hjá þeim. Lilla mundi lítið eftir þeirri heimsókn, nema hvað mamma hennar var alltaf að skammast út af því að þurfa að þvo rauðu tóbaksklútana hans afa.
 „Vertu velkomin nafna mín,“ sagði amma og tók hana í hlýtt fangið. Það var góð lykt af ömmu og gott að koma í fangið á henni. „Vertu velkomin Guðbjörg litla,“ sagði afi og angaði af tóbaki.

(s. 14-16)