Fótspor á himnum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997
Flokkur: 

Úr Fótspor á himnum :

Sandarnir voru hrímaðir.
 Jörðin hvít einsog brúðarkjóll, alsettur glitrandi steinum.
 Frostþoka í lofti.
 Þannig mundi Guðný amma mín veðrið þegar hún hugsaði heim í sveitina og stóð lítil og kát stúlka við túngarðinn.
 Í fjarska risu fjöllin einsog öldur og bylgjuðust sem bungur af kviði jarðar.
 Stundum líða þau í draumi, bugðótt líktog inni í þeim séu fóstur á hreyfingu.
 Amma er lítil stúlka.
 Hún horfir eftir veginum: veröldin kyndug sýn í frostþoku við hrímaða sanda.
 Mann fram af manni hafa forfeður hennar reynt að græða upp þessa sanda, en alltaf taka þeir völdin, rjúfa göt í svörðinn og flytja sig milli túna.
 Amma sér hreyfingu við veginn.
 Þetta er lest með fjórum hestum sem lötra, niðurlútir og þungir. Á fremstu hestunum sitja maður og kona og reiða sitt barnið hvort. Á milli klyfja á aftari hestunum gægjast tvö önnur barnsandlit.
 Í kátínu sinni veifar amma til fólksins, en fólkið líður hjá einsog vofur.
 Hún hleypur inn í bæ og sækir móður sína.
 „Hvaða fólk er þetta mamma?” spyr hún. „Það er verið að flytja þau sveitarflutningi,” segir Ásthildur móðir hennar.
 „Sveitarflutningi?”
 Amma hefur heyrt orðið en í barnsvitund sinni ruglar hún því við að sveitirnar séu fluttar burt, vegna sandfoks eða annarra umbrota í jörðu.
 „Þetta fólk er svo fátækt að það getur ekki séð fyrir sér sjálft og heldur ekki börnunum sínum,” segir móðir hennar.
 „Heldurðu að þeim líði betur hér?” spyr amma.
 „Það skulum við vona að guð gefi,” svarar móðir hennar sem tengir allt guði.

En fólkinu leið ekki vel.
 Hjónin voru sett í vinnumennsku hvort á sinn bæinn. Móðirin hafði yngsta barnið með sér. Hin börnin voru boðin upp eða í rauninni niður. Þau fóru til þeirra sem minnst vildu með þeim þiggja.
 Svo dó eitt barnanna, tíu ára drengur sem lent hafði á örreytiskoti.
 Faðir drengsins hafði oftar en einu sinni kært meðferðina á honum fyrir sýslumanni og presti, en hvorugum þótti taka því að sinna kvaki þessara aumu niðursetninga.
 Það var hægt að telja beinin í síðu drengsins af löngu færi. Hann varð að sögn bráðkvaddur. Síðan kvisaðist út að ekki væri allt með felldu um dauða hans.
 Drep var inn í bein á báðum stórutám, bjúgbólga á fótum. Áverkar fundust á líkinu við eyrnasnepla og á öðru gagnauga og á baki og lærum. 
 Við yfirheyrslur sönnuðust misþyrmingar. Játaði bóndi að hafa barið drenginn með vendi og dregið hann á eyrunum.
 Bóndinn hlaut dóm,en fjölskyldan flutti til Ameríku þar sem hún hvarf í haf þjóða.

(s. 9-10)

En að komast á vígvöllinn: Það var ekki einsog síðar þegar Halli frændi fór að fara í sólarlandaferðirnar og gekk inn á næstu ferðaskrifstofu þar sem brosandi menn með hvíta flibba sátu og sýndu litskreytta bæklinga með myndum af hótelum og baðströndum.
 Verkalýðsblaðið, blað kommúnista, hafði skýrt frá áformum Olla og Ragnars. „Hetjuleg samstaða gegn fasismanum,” stóð í fyrirsögn. Birt var mynd af þeim félögum og þeir sagðir sannir baráttumenn.
 Enginn veit hvað olli því, hvort það var þessi fregn eða eitthvað annað, en allt í einu var einsog allar leiðir út úr landinu hefðu lokast. Olli og Ragnar stigu því ekki á skipsfjöl fyrr en leiðtogum kommúnista hafði tekist að skrá þá í refaræktarskóla í Noregi.
 Þegar kallið kom flýtti Olli sér heim til sín á Grundarstíginn. Unnur undraðist asann á honum. Hún gekk um gólf með Stanley. Olli lét ýmislegt smádót niður í skjóðu, gekk að Unni og tók Stanley í fangið.
 Hann horfði í augu drengsins, kyssti hann og lagði hann svo frá sér hjalandi á gólfið.
 Því næst gekk Olli að Unni og tók þéttingsfast um mitti hennar. Hann horfði í augu hennar. Þau voru stór og seiðandi. Inni í þeim brann eldur sem þaut um Olla frá hvirfli til ilja. Olli tók utan um Unni og kyssti hana. Þetta var langur og heitur koss. Hún andvarpaði.
 Olli horfði lengi í augu hennar og sagði svo. „Kannski sérðu mig aftur, kannski ekki. Það veltur á vígstöðunni.”
 „Vígstöðunni?” sagði Unnur og hrökk frá honum hissa. „Um hvað ert þú að tala, Eyjólfur?”
Unnur las ekki Verkalýðsblaðið eða fylgdist með heimsviðburðum og Olli hafði ekkert verið að hafa fyrir því að segja henni hvað til stóð fyrr en nú.
 „Ég er farinn til Spánar að berjast,” sagði Olli. „Við Ragnar höfum verið að bíða eftir fari.”
 „Til Spánar!” sagði Unnur og undrun hennar óx. „Er hann Grímur boxari farinn að halda hnefaleikamót þar líka?”
 „Nei, þú misskilur,” útskýrði Olli. „Á Spáni er maður sem heitir Franco. Ég hef hugsað mér að skjóta hann. Síðan kem ég aftur og elska þig jafn heitt og áður.”
 Unnur var orðlaus. Hún grúfði andlitið í hendurnar og grét. Olli gekk að henni, kyssti hana á munninn og sagði: „Gráttu ekki Unnur, skipið er að fara.”
 „En Olli,” sagði hún brostinni röddu. „Hvernig komumst við af?”
 „Þú hefur einhver ráð með það,” sagði Olli. „Ég hef verið kallaður til æðri starfa einsog andalæknarnir.”
 Olli tók Stanley upp, kyssti hann og rétti hann til Unnar.
 Svo var hann farinn.
 Eftir stóð Unnur með Stanley litla á handleggnum og ófrísk á nýjan leik.
 Guðný og Ragnar stóðu á hafnarbakkanum og ræddu saman þegar Olli kom. Olli stóð góða stund álengdar en sagði svo: „Vertu ekki hrædd, Guðný mín. Við Ragnar gætum hvor annars.”
 Hún kyssti þá báða. Skipið leysti landfestar og þeir yfirgáfu landið, fannbarið í klakaböndum.

(s. 191-192)