Fólkið í blokkinni

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Myndir: Guðjón Ingi Hauksson.

Úr Fólkinu í blokkinni:

En steypan var ekki það versta. Skemmtilegast af öllu þótti Jakobi að naga tré, leður og pappír. Hann nagaði fyrst myndarammana og skeit svo á glerið. Hann nagaði lokið á píanóinu og skeit svo á nóturnar. Það sem honum fannst þó allra best var að naga leðurkilina á Laxnessritsafninu hans pabba og skíta niður eftir bókahillunum. Veslings mamma var á þönum að leggja lök yfir allt sem Jakob mátti ekki naga. En Jakob var rosalega lúmskur. Hann reif smágat í lakið og smeygði sér undir það til þess að naga píanóið og skíta á nótnaborðið.
 Pabbi var alveg að missa glóruna. Það sagði hann að minnsta kosti sjálfur. Þess vegna varð hann ekkert hrifinn þegar Jakob lærði að segja: „Allt í góðu, allt í góðu, Tryggvi!“ Það var Sara systir sem hafð kennt Jakobi að segja þetta. loks lagði pabbi blátt bann við því að Jakob færi út úr búrinu annars staðar en inni á baði. Þar mátti hann fara út úr búrinu þegar við krakkarnir vorum í baði.
 Jakob varð auðvitað algjör baðfíkill. Hann gargaði: „Bað, bað, bað!“ alveg linnulaust. Um leið og við komum heim úr skólanum byrjaði hann: „Bað, bað, bað, fram, fram, fylking, maðurinn með hattinn, bað, bað, bað!“
 Við neyddumst hreinlega til þess að vera alltaf í baði. Óli fór í bað þrisvar á dag, bara til þess að hafa Jakob góðan. Og Jakob vappaði fram og aftur á baðkarsbrúninni og öskraði: „Bað, bað, bað, fram, fram fylking, bað, bað, bað! “ Og svo flaug hann upp á hausinn á manni og renndi sér niður á öxlina og beit í eyrnasnepilinn á leiðinni, og ef maður lét hné standa upp úr vatninu stökk hann upp á það og lét eins og hann væri staddur á eyðieyju úti á reginhafi og öskraði: „Allt í góðu, allt í góðu, Tryggvi!“ En ef maður lét hnéð síga ofan í vatnið þóttist hann vera önd og buslaði þangað til hann var komin á bólakaf. Þá reif hann sig upp og flögraði hundblautur upp á baðkarsbrúnina.
 Mamma sleppti Jakobi stundum út úr búrinu þegar hún var í baði, en pabbi vildi alls ekki leyfa honum að koma með sér í bað.

(s. 26-27)