Flugnasuð í farangrinum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Úr Flugnasuð í farangrinum:

Kvöldganga í garðinum

Hann gekk oft um garðinn sinn. Og gladdist yfir því sem bar fyrir augu. Hann hafði einkum gaman af að ganga um garðinn að kvöldlagi. Á þessum göngum naut hann friðar og næðis. Samt hugsaði hann mikið um sköpunarverkið og fannst það harla gott. Hann talaði stundum á kvöldgöngum sínum við Adam sem honum leizt heldur vel á. Hann hafði gert hann af leiri jarðar og var stoltur af því. Og þá ekki síður öllum dýrunum í garðinum og öllum jurtunum og sá að það var gott.
 Eitt kvöldið datt honum í hug að gleðja Adam svo að hann yrði ekki einsamall. Og hann bætti konunni við sköpunarverkið og gerði hana af rifi Adams. Og hann gladdist með honum yfir þessari bráðsnjöllu hugmynd.
 Svo var það einn góðan veðurdag þegar hann var á heilsubótargöngu í kvöldsvalanum að hann sá höggorminn á eintali við Evu. Og uppgötvaði að þau Adam höfðu óhlýðnazt fyrirmælum hans og etið af skilningstrénu. Þá rak hann þau burt úr garðinum og sagði þeim að yrkja jörðina og uppfylla hana. Og þau fóru út úr garðinum. Þau létu skrifa bókina um sköpunarverkið og sögðu að hún væri byggð á orðum hans og fullyrtu að maðurinn væri skapaður í hans mynd. Þá var hann að mestu hættur kvöldgöngum í garðinum og tekinn að efast um ágæti sköpunarverksins. En þegar fullyrt var að maðurinn væri skapaður í hans mynd taldi hann nóg komið af svo góðu og hætti kvöldgöngum í garðinum. Og hann hefur ekki sézt síðan.

(s. 37-38)