Fljótt, fljótt sagði fuglinn

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1968
Flokkur: 

Úr Fljótt, fljótt sagði fuglinn:

Borgardagarinr voru heitir og sólin bakaði veröldina, varla sástu skýjadræsu veikja sífelldan bláma himinsins, og fiskurinn svaf á torginu hjá öskrandi kerlingum einsog hann væri ekki dauður; en það voru hérarnir sem héngu blóðugir með fasönum og kálfshausum yfir lifur hjörtum og nýrum í sínu yndislega blóðbaði og kallaði á stað á pönnu, nema annað augað í kálfshausnum hafði eitthvert undarlegt samband við blómkálshöfuð sem var áður með svo sem fimm þumlunga mannveru sem blygðaðist sín og lét þig ekki sjá sig, síðan þetta auga: og þá komu raddirnar aftur og töluðu til þín, og þú sást skugga þeirra vefjast saman og greiðast sundur á blikfleti þessa dökka auga sem var svo hryggt af þeim dansi og af því að þurfa að bera þér hann þegar þú gazt varla borið meira og þurfa að binda þig þarna þessum voðalega galdri.

Og þannig stóð hann kyrr þessi stóri maður grannur en breiðleitur. Svart liðað hár yfir háu breiðu enni sem var dálítið kúpt og þungt yfir sterklegu nefi og augunum sem lágu djúpt, lítil blá. En blámanum var sundrað af litlum hvíthvesstum skurðgeislum sem hjuggu í augun, kannski að innan ef ekki utan; nístu bláan harm þeirra og rufu mísikina og raddirnar komust að honum berskjölduðum, þá gat enginn harmur bjargað og óþolið hófst.

Þá var hann skorinn sundur og skynjaði á tveim sviðum en raddirnar hækkuðu og ætluðu að keyra hann inn í æði sitt, það var einsog vitund hans lægi yfir háskaleg takmörk, og hann vafði sig um línuna sem skildi milli, og fálmaði án þess að ná festu til að bjarga sér frá ógnarplani raddanna sem fóru inn i hann og hann var þræddur á strenginn og fann raddirnar fara inn í sig en átti ennþá lítið eftir hinumegin svo þær náðu honum ekki öllum, og geimurinn opnaðist inn í honum og hann var utan um veröldina og fann geiminn þenja sig með nýjum hvínandi stjarnþokum, og raddirnar hækkuðu og urðu að geimþyrli, ofhæðarsón, hann var að hverfa þangað; en hann áttaði sig og sá hund með rófuna milli fótanna og sitt kalda vota trýni niðri við jörð horfa með sakleysi sinna augna á hann og eyrun aftur, og hundurinn var farinn að geispa einsog hann væri farinn að heyra þennan són líka og ætlaði að fara að spangóla sem er svar hundsins við undrum og sorginni og vá og ógn og æði mannsins, og maðurinn fann hneigð til að grípa til hins sama en þá bráðnaði hin mikla geimkennd í honum, þá hneig geimvíddin mikla saman og rann í þungum bylgjum burt; hann fann að hann stóð á markaðstorgi, og hann sá helskotinn hérann hanga á eyranu og var svo sterkur í blóði sínu og sinni mynd að friður sorgarinnar og táranna brauzt fram í honum til líknar, hann flýtti sér á stað til að enginn sæi.

Enginn nema hundurinn sem missti spangólið og rétti sig upp og horfði á eftir honum, og rófan var ekki lengur milli fótanna heldur slóst hún ofurlítið til niðurvísandi án þess að ná pendúlsveiflum, án þess að verða taktmælir; eyrun réttust aftur upp.

(s. 257-258)