Fley og fagrar árar

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1996

Úr Fley og fögrum árum:

Hvað var ég að flýja? Það vantaði margt í Reykjavík þegar ég var strákur af því sem maður þráði í fáfræði sinni. Það vantaði sinfóníuhljómsveit. Það vantaði myndlistarsöfn. En ekki kaffihús því þá var ennþá til Hressingarskálinn sem nú hefur verið afhentur samsærisfyrirtæki yankeeismans, MacDonald til þess að affæra Íslendinga í laginu, setja fituna á vitlausa staði.
Þá stóð maður ekki í stríði til þess að ákveða sig og velja milli hljómleika einsog nú er við mikið framstreymi af ungu hæfileikafólki. Svo ég tali ekki um myndlistarsýningar sem er verið að opna daglangt um helgar. Jú það voru áskriftartónleikar Tónlistarfélagsins, og ég þurfti að beita slægvizku til að smeygja mér inn í þann göfuga félagsskap og fékk fyrir bragðið ýmsa hugljómun sem hefur enzt mér fram á þessa stund. Þá voru þeir félagarnir Árni Kristjánsson og Björn Ólafsson að músísera saman og stundum höfðu þeir með sér góða menn í fullskipaðan kvartett sem var sennilega kenndur við Ríkisútvarpið einsog fleira gott á þeim dögum. Þá voru hvalrekar sem færðu Reykjavík í heimsmiðjuna einsog þegar Wilhelm Busch kom með kvartett sinn og lék á fiðluna sína og opnaði hug og hjarta leið til höfuðsnillinga einsog Beethoven. Seinna kom hann ásamt sínum dýrlega tengdasyni Rudolf Serkin þessara sömu erinda og gerðust báðir elskir að Íslendingum; og þóttust aldrei hafa hitt annan eins mann og ærslafullan í menningarfyrirgreiðslu einsog Ragnar í Smára og ríkan af ást á hinni dýrustu tónlist að hefðbundnu mati.
Fleiri miklir meistarar bárust á vegum Tónlistarfélagsins sem Ragnar í Smára rak af ofurhug sínum og geðrausn einsog fleira og færðist sífellt í aukana og ég efast um að það hafi verið með öðru bókhaldi heldur en því sem rúmaðist í dagatalsbók með nokkrum línum fyrir hvern dag og því sem geymdist í minninu en ekkert pláss fyrir fyrirtækið sem stóð undir því öllu þar sem sleppti þeim fjármunum sem voru ortir frá degi til dags af óþrjótandi hugviti. En uppsprettulindin var smjörlíkisframleiðslan handa Íslendingum og lagði til þá raunverulegu fjármuni sem nærðu íslenzka menningu og gáfu færi til þess að halda því menningarlífi fljótandi sem ríkisvaldið sveikst oftast um. Og hefði átt að vera á opinberu færi margt sem þessi maður dreif áfram svo snar í snúningum að ágengustu rukkarar hins opinbera gátu aldrei haft hendur á honum til þess að stöðva það sem á þeim hamri sýnist óþarfi gagnvart hinum hörðu staðreyndum lífsins á embættishjallanum eða ógrónum stallinum hins opinbera.

(s. 39-40)