Fíasól í fínum málum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Úr Fíasól í fínum málum:

„Fíasól er sjö ára gamall krabbi sem býr í Grænalundi í Grasabæ. Hún er ekki alvöru krabbi. Hún er stelpa í stjörnumerkinu krabba og finnst það ömurlegt. Þess vegnar hefur hún ákveðið að vera í rósótta fiðrildinu, sem er alveg glænýtt stjörnumerki, sérstaklega fyrir þá sem vilja ekki vera krabbar. Í grænalundi býr hún með mömmu sinni og pabba, stóru systrunum Pippu og Biddu og kjölturökkunum Hansínu og Jensínu. Besti vinur Fíusólar er Ingólfur Gaukur. Hann er níu ára og á heima í húsinu á ská á móti. Beint á móti Búa Höskuldur, Hallbjörn og Heba. Þau eru líka sérstaklega góðir vinir Fíusólar.
  Ég þarf aldrei að fara úr Grænalundi, segir Fíasól stundum. Hér hef ég alla vini mína, dótið mitt, rúmið og auðvitað matinn.
  Þú þarft nú að skreppa í skólann, segir þá Pippa systir hennar sem er tíu ára.
  Já, en svo fer ég beint heim því þar er allt sem ég þarf, svarar Fíasól.
  Hvað ef þú þarft að fara til læknis? spyr Pippa þá.
  Þá hringi ég bara og fæ lækninn til mín, segir Fíasól.
  En ef þú vilt fara í bíó eða leikhús? segir Pippa systir þrjóskulega.
  Þá bý ég bara til mitt eigið leikhús.
  En ef við erum öll boðin í veislu um kvöld. Ætlar þú þá að vera alein heima með draugunum í myrkrinu? stríðir Pippa.
  Já, og þá held ég bara veislu með draugunum, segir Fíasól dálítið kvíðin.
  En ef ... heldur Pippa áfram, og svona þrasa þær systur daginn út og inn.
  Ó, ég er svo svakalega hugmnydarík, segir Fíasól stundum með aðdáun í röddinni.
  Hún hefur líka rétt fyrir sér.
  Þú ert drottning í þínu eigin, ristastóra hugmyndaríki, segir mamma Fíusólar við hana. En þú verður að passa að hugmyndirnar þínar fljúgi ekki svo hátt að þú missir þær út í veður og vind og einhverja vitleysu.
  Ef maður býr í stóru hugmyndaríki er maður ýmist í vondum eða fínum málum. Það er nefnilega oft svo erfitt að þekkja góðar hugmyndir frá slæmum. Góðar hugmyndir geta komið manni í vandræði og vondar hugmyndir geta litið út fyrir að vera bara nokkuð góðar í fyrstu.“

(s. 8-10)