Ferð yfir þögul vötn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1987

Úrval ljóða eftir finnsk- sænska skáldið Bo Carpelan, sem hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1977 fyrir ljóð sín. Njörður þýddi og ritaði inngang.

Úr bókinni:

Eins og að nálgast járnbrautarstöð

Eins og að nálgast járnbrautarstöð
að morgni þegar sólin brýst gegnum reykinn
og leiðslurnar greiða úr flækju sinni,
gnýr teinanna dvínar, ég bíð -

Eins og þegar horft er á mig sjúku andliti
og ég bíð, köld kringlótt loftljósin í stofunni
verða mynstur sem er fjarrænt og þögult
og höndin er holdlaus, að dauða komin -

og báðar þessar tilfinningar tengjast, það má afbera
eins og það sem þyngst og einmanalegast
var lagt á mig barn og óx með mér og vissu minni.


Ekki stíga á strik

Það mátti ekki stíga á strik, en hrækja á eftir köttum,
ekki ganga undir stiga, en taka tvö þrep í einu
uns lungun kveinuðu á frelsi undan sjálfviljugri kvöl.
Dúkurinn á eldhúsborðinu var með kröfuhart mynstur.
Alltaf voru reglur. Undantekningar eins og sumarsvölur,
sjaldgæf, snögg óp, óðar horfin,
og portið sunnudagsþögult.
Reglurnar voru til að gera tilveruna leyndardómsfyllri en hún var
Og hugsanirnar hreyfðust þöglar eins og skyttur
og ófu rammskakka vefi
eða í undursamlegum litum.

(45-6)