Feigðarflan

Útgefandi: 
Staður: 
Garðabær
Ár: 
2005
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Skáldið Egill Grímsson hefur tekið ákvörðun um að stytta sér aldur. Framkvæmdin vefst þó fyrir honum og í leit að stund og stað ferðast hann á tveimur sólarhringum um líf sitt, land og íslenska samtímamenningu. Yfir öllu vokir kynleg feigð, eins og sveitir jafnt sem sjávarpláss riði til falls og á köflum er engu líkara en íslenska þjóðin sé vegalaus eftir valdatöku jeppakynslóðarinnar.

Um þetta hrikalega landslag, sem þó er fullt af litríku fólki og spaugilegum uppákomum, ferðast lesandinn með laskaðan áttavita söguhetjunnar sér til halds og trausts.

Úr Feigðarflani:

Þegar við komum í Reykjanes er ekkert lífsmark að sjá. Það var svo sem auðvitað, á þessu feigðarflani mínu er allt á sömu bókina lært. Greinilegt að ég hef enga æfingu í að deyja.

,,Ég hélt það væri opið allt árið, segir Snæfríður og tekur af sér heyrnartólin.

Ég svara ekki. Ef ég hefði ekki asnast til að taka þetta stelpuskrípi upp í væri ég í góðum málum.

Ég stöðva jeppann við dælurnar og stíg út. Það er skrýtið til þess að hugsa að móðir mín hafi gengið um þessar grundir þegar hún var ung stúlka. Ég sé fyrir mér hvernig tárin hafa hrunið þegar hún þurfti að kveðja foreldra sína á bryggjunni heima.

,,Við skellum okkur allavega í laugina, segir Snæfríður og trítlar í áttina að henni. ,,Komdu. Ég veit þig langar til þess að sjá mig bera.

Ég lít í áttina að sundlauginn og sé að flikkað hefur verið upp á hana síðan ég var hérna síðast. Í þessari laug lærði móðir mín að synda. Þarna hefur hún staðið á bakkanum í ýmsum veðrum, litla stýrið, ein á heimavistarskóla vikum saman á hverjum vetri.

Snæfríður fer strax að hátta sig á sundlaugarbakkanum, en ég er satt að segja á báðum áttum; hvort ég eigi að leyfa mér að glápa eins og eldgömul sápa og þá ekki síður hvort ég eigi að skella mér ofan í með hanni. Get þó ekki stillt mig um að gjóa aðeins augunum á hana: Hún er óttaleg mjóna, brjóstin smá og varla nokkurt hár á milli fótanna. Samt er eitthvert sakleysi yfir nöktum líkama hennar sem ekki er yfir henni í förum. Ég get víst ekki státað af slíku sakleysi lengur, komin ístra á mig og allir vöðvar orðnir slakir, að minnsta kosti miðað við það sem áður var. Það gerðist bara einhvern veginn og án þess að ég fengi rönd við reist. Ég stóð einn daginn fyrir framan spegilinn og sá miðaldra karl án þess að finnast ég vera orðinn svo mikið sem fullorðinn, hvað þá miðaldra.

,,Þetta er geðveikt! segir hún. ,,Komdu líka. Ég lofa því að kíkja ekkert.

Ég get ekki neitað því að um mig hríslast straumur sem kallast á við gamla hugaróra. En þetta er bara barn, segi ég við sjálfan mig. Já, en þú ætlar bara í laugina, þú ætlar að njóta jarðhitans einu sinni enn áður en þú deyrð.

,,Drífðu þig, þetta er æðislegt!

Ég er að fara úr jakkanum þegar ég sé mann koma út úr húsinu. Mér verður hverft við, klæði mig strax í ermina aftur og fer á móti manninum. Af útlitinu að dæma gæti hann verið uppgjafaleikari eða eitthvað í þá áttina.

,,Góðan daginn! segir hann.

(70-1)